Samningurinn er „sérstakur gjörningur“

Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands segir að námssamningur sem gerður var við fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans sé sérstakur gjörningur. Hann telur að samningurinn sé einsdæmi innan bankans.

Seðlabankinn birti í gær samkomulag sem bankinn gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits á árunum 2009 til 2017. Það gerði bankinn eftir að héraðsdómur úrskurðaði að honum bæri að láta samninginn af hendi.

Samkomulagið var undirritað í apríl 2016 og fól í sér að bankinn greiddi samtals 8 milljónir króna fyrir MPA nám við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Þar að auki fékk hún greitt 60 prósent af launum meðan á náminu stóð. Ekki varð gerð krafa um að Ingibjörg sneri aftur til starfa hjá bankanum að námi loknu enda sagði hún upp störfum hjá bankanum á meðan hún stundaði námið.

Sá samninginn fyrst í gær

Þórunn Guðmundsdóttir, þáverandi formaður bankaráðs seðlabankans, segist í samtali við fréttastofu fyrst hafa séð umræddan samning í gær, þegar hann var birtur í fjölmiðlum. Núverandi formaður, Gylfi Magnússon, segir ekki óeðlilegt að Seðlabankinn styðji starfsfólk sitt til endurmenntunar eins og aðrar stofnanir en að þessi tiltekni samningur sé óvenjulegur.

Vildu halda Ingibjörgu hjá bankanum

„Óneitanlega er þetta sérstakur gjörningur. Þetta er auðvitað bæði mjög há upphæð og frekar óvenjulega að þessu staðið,“ segir Gylfi sem segist leggja þann skilning í málið að þetta hafi verið eina leiðin til að halda viðkomandi starfsmanni í vinnu hjá bankanum. „Minn skilningur er að þegar þessi samningur er gerður þá hafi í raun og veru samið um að starfsmaðurinn ynni áður en hann færi í nám heldur en eftir að hann færi í nám.“ Var þetta þá nokkurs konar starfslokasamningur? „Þetta var nú kannski frekar samningur til að halda starfsmanninum í starfi lengur.“

Gylfi segist ekki telja að aðrir viðlíka samningar hafi verið gerðir hjá Seðlabankanum. „Nei, ég tel að svo sé ekki. Að minnsta kosti hefur verið farið yfir það með bankaráðinu og það hefur ekki komið neitt fram um neina aðra sambærilega samninga.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi