Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samningar í höfn og verkfalli Eflingar aflýst

10.03.2020 - 04:17
Mynd með færslu
Frá vinstri: Rakel Guðmundsdóttir og Harpa Ólafsdóttir, Reykjavíkurborg, Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Ríkissáttasemjara, Ástráður Haraldsson, aðstoðarríkissáttasemjari, Sólveig Anna Ólafsdóttir, formaður Eflingar, Ragnar Ólason og Viðar Þorsteinsson, Eflingu Mynd: Kristján Þór Ingvason - RÚV
Efling og Reykjavíkurborg undirrituðu í nótt kjarasamning, eftir þriggja vikna langt verkfall Eflingarfólks sem starfar hjá borginni. Verkfallinu hefur því verið aflýst og Eflingarfélagar munu snúa aftur til vinnu í dag. Í tilkynningu frá Eflingu kemur fram að samningurinn feli í sér allt að 112.000 króna launahækkun á samningstímanum fyrir Eflingarfólk í fullu starfi í lægstu launaflokkunum.

„Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun að fyrirmynd almenna vinnumarkaðarins er náð fram með töflubreytingu sem skapar að meðaltali um 7.800 krónur í viðbótargrunnlaunahækkun hjá öllum Eflingarfélögum og einnig er samið um sérstaka viðbótarhækkun lægstu launa í formi sérgreiðslu,“ segir í tilkynningu félagsins.

Sérgreiðslan nemur 15.000 krónum í lægstu launaflokkunum en fer lækkandi eftir því sem ofar dregur. Þá var samið um styttingu vinnuvikunnar fyrir hvort tveggja dag- og vaktavinnufólk á sömu nótum og samið hefur verið um að undanförnu, það er, um 36 stunda vinnuviku fyrir vaktavinnufólk og 32 stunda vinnuviku fyrir fólk á þrískiptum  vöktum, sem þarf að vinna jafnt á daginn sem kvölds og nætur, og allt niður í 36 tíma fyrir dagvinnufólk. Einnig samdist um 10 fasta yfirvinnutíma á mánuði fyrir leikskólastarfsfólk, sem eru tryggðir í formi sérgreiðslu, auk þess sem námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launum. 

Samningurinn nær til um 1.850 félaga í Eflingu, sem starfa hjá Reykjavíkurborg og eru að miklu meirihluta konur í umönnunar- hreingerninga- og mötuneytisstörfum. Gildistími samningsins er til 31. mars. 2023.

Enn verkföll í Kópavogi, Ölfusi og víðar

Sem fyrr segir voru um 1.850 Eflingarfélagar sem starfa hjá Reykjavíkurborg í verkfalli þegar mest var, en þeim fækkaði nokkuð þegar undanþágur voru veittar fyrir sorphirðu og þrif vegna COVID-19.

Í gær hófst svo verkfall um 300 Eflingarfélaga sem starfa hjá Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Hveragerði og Ölfusi. Það verkfall stendur enn og ekki hefur verið boðað til fundar í þeirri deilu enn sem komið er. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður þess þó vart lengi að bíða. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV