Samloka með skorpu, möttli og kjarna

21.01.2020 - 07:11
Mynd með færslu
 Mynd: Etienne Naude
19 ára nýsjálenskur háskólastúdent og spænskur sjálfboðaliði bjuggu til það sem kallað er jarðarsamloka. Etienne Naude og Spánverji, sem hann kann lítil sem engin deili á, nýttu kortavef Google til þess að vera vissir um að þeir væru á nákvæmlega andstæðum stöðum á jarðkringlunni.

Þeir fundu út hárrétta lengdar- og breiddargráðu, og lögðu svo hvor niður sína brauðsneiðina, Naude á Bucklands ströndinni í Auckland, og Spánverjinn í skóglendi við þjóðveg MA-414 á sunnanverðum Spáni.

Naude var hæstánægður með árangurinn í viðtali við ríkisútvarpið í Nýja Sjálandi. Hann sagði magnað að það væri hægt að vinna þetta svona hvor sínu megin á hnettinum. Það hafi verið erfitt þar sem 12 tíma munur er á milli landanna, og var að mörgu öðru að huga. Þeir þurftu að koma sér saman um hvernig brauð ætti að nota, tímasetningu, og svo finna nákvæma staðsetningu.

Sjálfur þurfti Naude aðeins að rölta nokkur hundruð metra niður að ströndinni í Auckland til að leggja sína brauðsneið til gjörningsins. Spánverjinn þurfti hins vegar að fara um 11 kílómetra leið. 

Naude reyndi í fyrstu sjálfur að finna sjálfboðaliða í gegnum fjölskyldu og vini sem þekktu einhverja á Spáni. Þegar það gekk ekki eftir reyndi hann fyrir sér á samfélagsmiðlinum Reddit, þar sem sjálfboðaliði fannst.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi