Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samkomulag um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks

05.03.2020 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Samkomulag hefur tekist um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki í kjaraviðræðum við ríki og sveitarfélög. Samkomulagið er stór liður í því að samkomulag náist um undirritun kjarasamninga og vonar formaður BSRB að það verði áður en boðaðar verkfallsaðgerðir hefjast á mánudaginn.

Starfshópur um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki hefur starfað í dágóðan tíma. Í honum sitja fulltrúar BSRB, BHM, Félags hjúkrunarfræðinga og Alþýðusambandsins og fulltrúar viðsemjenda hjá ríki, borg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Samkomulag náðist loks í gærkvöld.

„Þetta er býsna stór áfangi en hins vegar af þeim stóru liðum sem eru eftir eru jöfnun launa á milli markaða og svo launaliðurinn sjálfur hjá aðildarfélögunum sjálfum, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir,“ formaður BSRB.

Unnið hörðum höndum að samningum

Áður hafði verið gengið frá samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki. Samkomulagið nær meðal ananrs til 18 aðildarfélaga BSRB sem ætla að hefja verkfallsaðgerðir á mánudaginn. Með samkomulaginu aukast verulega líkur á að það takist að semja áður en til þeirra kemur.

„Það eru allir hér í Borgartúninu að vinna hörðum höndum að því að ná kjarasamningum. Atriðin sem eru eftir eru þess eðlis og búið að ræða í það langan tíma að það er hægt að ganga frá þeim hratt og vel og það er það sem við hjá BSRB erum að horfa til núna að það verði gengið frá kjarasmningum,“ segir Sonja.