Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samkomubanni þarf að beita á réttum tíma

11.03.2020 - 21:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allsherjar samkomubann verður lagt á í Danmörku frá næsta föstudegi. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að mörg úrræði hér á landi séu á teikniborðinu og að það fari að nálgast sá tími að það þurfi að beita þeim. Það sé umdeilt hvort samkomubann skili árangri. Þau verði að setja á á réttum stað og á réttum tíma. Það sé heilbrigðisráðherra sem taki loka ákvörðun um það hvort samkomubanni verði beitt.

Hvað er það sem gerir það að verkum að þú vilt ekki beita þessu strax? „Það er vegna þess að við erum ekki að sjá það mikið af innlendu smiti enn sem komið er að það sé rétt að fara út í þær aðgerðir. Eins þarf að hugsa um hvaða hópar það eru sem þarf að koma í veg fyrir að hittist svona. Þetta er spurning um daga í þessum undirbúningi hvernig framkvæmdin verður. Það er ekki alveg endanlegt en við erum ekki að tapa neinum tíma. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga,“ sagði Þórólfur í Kastljósi kvöldsins.

Hér má horfa á Kastljósið í heild sinni.

Þú hefur sagt að ef við gerum þetta of snemma þá muni blossa upp smit síðar þegar því verður aflétt, af hverju? „Það er vegna þess að ef að við beitum mjög hörðum aðgerðum og stoppum og lokum öllu, að ná nær smitið sér í raun og veru ekki á strik og það verður kannski mjög lítið en þegar við afléttum þessu banni, hvenær sem það verður, að þá er mjög mikil hætta á því að við fáum topp í þessum sýkingum og þetta hefur sést annars staðar þannig að þetta er ekki eitthvað hugarfóstur hjá okkur, heldur hefur þetta sést annars staðar og fræðingar sem um þetta fjalla vara einmitt við þessu.“

Aðspurður að því hvort hann eigi við að það sé í raun og veru óhjákvæmilegt að stór hluti þjóðarinnar smitist, flestir fái væg einkenni og að jafnvel tugir þúsunda fái veiruna og nýtt hlutfall fái alvarleg einkenni, segir Þórólfur að það sá akkúrat það sem þau hafi verið að segja. Það sé ekki endilega kappsmálið að koma í veg fyrir að veiran dreifi sér mjög mikið, heldur að vernda þá sem geti farið illa út úr henni. „Það gerum við núna með því að hindra dreifinguna en næsta skref er að einangra og einbeita sér að þessum einstaklingum sem eru viðkvæmir þannig að það eru nokkrir kaflar í þessum bardaga, getum við sagt, sem að þarf að grípa til og við erum í kafla eitt til tvö.“