Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samkeppniseftirlitið fær að halda gögnum Eimskips

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samkeppniseftirlitið fær að halda þeim gögnum sem það hefur lagt hald á hjá Eimskipi í tengslum við rannsókn á meintu ólögmætu samráði fyrirtækisins við Samskip.

Þetta kemur fram á vef Samekppniseftirlitsins og er vísað í úrskurð Landréttar frá í gær. Úrksurðurinn hefur ekki verið birtur á vef Landsréttar.

Rannsókn málsins hefur staðið yfir lengi. Árið 2013 og 2014 gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Eimskipi, Samskipi og dótturfélögum þeirra vegna gruns um ólögmætt samráð. Rannsóknin hefur staðið yfir síðan og mun vera komin vel á veg.

Í október vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá kröfu félagsins um að rannsóknin yrði úrskurðuð ólögmæt og að henni skyldi hætt.  Þeim úrskurði var skotið til Landsréttar sem staðfesti ákvörðun héraðsdóms.

Því næst var tekist á um kröfu Eimskips um að aflétt yrði haldi sem hafði verið lagt á gögn Eimskips og afritum af þeim eytt. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu í desember og Landsréttur staðfesti þann úrskurð í gær.

Á vef Samkeppniseftirlitsins segir að málið sæti forgangi en umfang rannsóknarinnar sé án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi.