Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samið um starfslok við sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps

14.02.2020 - 22:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þór Steinarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, hefur komist að samkomulagi við sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps um starfslok. Hann greinir frá þessu á Facebook og segir að ástæðan sé fyrst og fremst ólík sýn á hlutverk og störf sveitarstjóra. Hann hefur verið sveitarstjóri eitt og hálft ár.

Sigríður Bragadóttir oddviti í Vopnafjarðarhreppi segir að hann sé nú hættur störfum. Hún tekur undir með því sem Þór segir í færslunni um misjafnar áherslur hafi verið milli sveitarstjóra og sveitarstjórnar. Samkomulag hafi verið um að gera starfslokasamning og ekkert verði gefið upp um efni hans.

Sara Elísabet Svansdóttir skrifstofustjóri sé staðgengill sveitarstjóra og taki við því starfi. Sigríður segir að sveitarstjórnin geri ráð fyrir að vinna þetta í sameiningu til að byrja með þar til nýr sveitarstjóri verði ráðinn. Stefnt sé að því að ráða nýjan sveitarstjóra fljótlega. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV