Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samherjamálið kalli ekki á grundvallarbreytingar

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd. - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það ekki trufla sig persónulega að einhverjir hafi hagnast á kvótakerfinu. Að hans mati kalli Samherjamálið ekki á nýja stjórnarskrá eða grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem hann telur vel heppnað í öllum aðalatriðum. Hins vegar komi til álita að stærri útvegsfyrirtæki verði látin lúta sömu kröfum og fyrirtæki á markaði eða að þeim verði gert að skrá sig á markað, nái þau ákveðinni stærð.

„Það truflar mig ekki persónulega ekki að einhverjir hafi hagnast á þessari vegferð vegna þess að það er miklu betra en það sem áður þar sem að menn voru að tapa,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali á Sprengisandi Bylgjunnar í dag.

Kerfið í stöðugri þróun

Kerfið sé í stöðugri þróun og sífellt verið að aðlaga það og breyta til að mæta óánægju með það. Nú standi til að endurskoða skilgreiningu á tengdum aðilum í lögum um fiskveiðistjórnun, sem mörgum þyki of þröng. Hann telji þá ekki að önnur viðmið eigi að gilda um tengda aðila í sjávarútvegi en í öðrum atvinnurekstri.

Þá hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bent á að hér á landi séu hlutfallslega mörg fyrirtæki sem hafa kerfislegt mikilvægi en eru ekki í almenningseigu eða upplýsingar um fjárhagslega stöðu þeirra eru ekki opinberar. Því sé einnig vilji fyrir því að gagnsæi um fjárhagslega stöðu þeirra fyrirtækja verði aukið. 

Þá þykir honum koma til álita þegar fyrirtæki, sem nýti auðlindir, nái ákveðinni stærð verði þau annað hvort látin lúta sömu skyldum og skráð félög eða að skrá verði þau í Kauphöll. Þannig eigi allir Íslendingar þann kost að hætta sínu sparifé í þátttöku þessara fyrirtækja. „Þetta finnst mér vel koma til greina fari menn yfir ákveðin stærðarmörk.“

Þurfi að skoða heildarmyndina

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sem einnig var viðmælandi þáttarins, segir Bjarna vera blindan á heildarmyndina og standa of nærri henni. Mynstur blasi við.

Á síðastliðnum tíu árum „höfum við upplifað  efnahagshrun, það hafa verið birt Panamaskjöl sem sýna óásættanlega hegðun, vafningsmál, lekamál, við höfum vegna trassaskapar lent á gráum lista og nú fáum við þetta Samherjamál. Við erum að sjá mynstur, við erum ekki að sjá einstaka hluti,“ segir hann.

„Það mynstur á ekki bara við um þá óæskilegu hluti sem hér hafa gerst heldur líka mynstur í viðbrögðum stjórnvalda, eða viðbragðsleysi.“ Vissulega verði að rannsaka Samherjamálið en síðan þurfi að horfa á stóru myndina. „Nú þurfum við að fara að læra það að draga strik á milli nokkurra punkta og sjá myndina,“ segir Logi.