Samgöngustofa svarar um Procar

Mynd með færslu
 Mynd:
Samgöngustofa hafði ekki lagaheimild til þess að svipta bílaleigu starfsleyfi að því er kemur fram í tilkynningu Samgöngustofu. Bílaleigan Procar er ekki nefnd á nafn í tilkynningunni en á samhenginu virðist greinilegt að átt er við hana.

Samgöngustofa birti tilkynningu á vef sínum eftir hádegi í dag. Þar segir að hún hafi aðeins valdheimildir gagnvart starfsemi ökutækjaleiga í samræmi við lög um þær en ekki valdheimildir um endursölu ökutækja á markaði. „Hin meintu brot áttu sér að meginstefnu til stað við endursöluna og eru til skoðunar hjá lögreglu,“ segir í tilkynningunni. 

Fyrst var greint frá því í Kveik í febrúar að kílómetramælar í bílum Procar hefðu verið færðir niður áður en þeir voru seldir á almennum markaði. Kveikur hélt áfram umfjöllun stuttu síðar. Samgöngustofa óskaði í kjölfarið eftir upplýsingum og gögnum frá öllum ökutækjaleigum með starfsleyfi. Þær eru 127. Vinna stofnunarinnar vegna mögulegra breytinga á kílómetratölu akstursmæla ökutækja stendur enn yfir. 

Þá kemur fram að í einu tilfelli þar sem ökutækjaleiga hafi gengist við breytingum á kílómetrastöðu hafi stofnunin sent leigunni viðvörun um að fyrirhugað væri að fella niður leyfi bílaleigunnar. Bílaleigunni hafi verið veitt ráðrúm til úrbóta. „Þar sem þessi tiltekna ökutækjaleiga hafði sannanlega bætt úr annmörkum með því m.a. að bæta innra eftirlit þannig að þetta myndi ekki endurtaka sig var litið svo á að stofnunin hefði ekki lagaheimild til að framkvæma sviptinguna,“ segir í tilkynningunni. Hins vegar hafi Samgöngustofa sent öll gögn málsins til lögreglu, sem hafi nú málið undir höndum. 

Samgöngustofa hafi sent bílaleigu viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis en bílaleigan hafi bætt úr annmörkum og þá hafi verið litið svo á að Samgöngustofa hefði ekki heimild til að svipta bílaleiguna starfsleyfi. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi