Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samfylkingin stærst samkvæmt nýrri könnun

31.12.2019 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Samfylkingin
Samfylkingin mælist stærsti flokkur landsins og Sjálfstæðisflokkurinn með minna fylgi en hann hefur áður fengið í skoðanakönnunum í nýrri könnun Maskínu fyrir Stöð 2.

Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin 19,0 prósenta fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn 17,6 prósent og Viðreisn og Píratar fengju hvor um sig 14,0 prósent. Miðflokkurinn mælist í könnuninni með 12,1 prósent atkvæða, Vinstri græn 11,7 prósent og Framsóknarflokkurinn 7,4 prósent. Flokkur fólksins fengi 4,1 prósent. Samanlagt eru það 99,9 prósent. Ekki kemur fram í frétt Stöðvar 2/Vísis hver skekkjumörk könnunarinnar eru. Hún var unnin um miðjan mánuðinn og svöruðu um 60 prósent af 914 sem haft var samband við. 

Þessar niðurstöður eru talsvert frábrugðnar öðrum nýlegum skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst stærstur í þeim öllum, en reyndar var munurinn á honum og Miðflokknum innan skekkjumarka í könnum MMR í síðasta mánuði. Samfylkingin var næst stærsti flokkurinn í síðustu könnunum Gallup og MMR með 15,8 og 14,4 prósenta fylgi. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV