Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samfylkingin skilar Samherjastyrkjum til Namibíu

13.11.2019 - 20:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að flokkurinn hafi þegið 1,6 milljónir frá Samherja í styrki á 14 ára tímabili. „Við ákváðum það strax í nótt að skila þessum peningum, en að við myndum skila þeim niður til Namibíu, þannig að við ætlum að láta þá renna til SOS-barnaþorpa.“

Hér má horfa á Kastljós í heild. 

Logi segir að umfjöllun Kveiks í gærkvöld hafi teiknað upp mynd af skefjalausri græðgi, lélegu siðferði, þar sem spilling, mútur, skattsvik og ýmislegt fleira birtist. Tryggja verði að skattrannsóknastjóri og héraðssaksóknari fái nægt fé og mannafla til að komast til botns í málinu. 

Logi telur málið skaði orðspor Íslands, lengi veru landsins á gráum lista og gæti lokað á sölulínur annarra sjávarútvegsfyrirtækja. „Þannig að þetta er mjög alvarlegt mál sem þarf að taka alvarlega og ég held að við séum á pólitískum krossgötum af því að við þurfum líka að ræða um hvernig við stýrum eða stýrum ekki okkar auðlindum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, starfaði í nokkur ár við rannsóknir á spillingarmálum í Bosníu og víðar í Evrópu. Spilling sé í öllum löndum en misjafnt hvernig stjórnvöld landa taki á henni. „Þá er þetta spurning um gagnsæisreglur, viðurlög og ekki síst um það hvernig á að vernda uppljóstrara sem koma fram sem virðast vera gert í Namibíu en eru ekki  til lög um hér á Íslandi.“ 

Smári segir lítið hafa komið frá íslenskum stjórnvöldum. Sjávarútvegsráðhera hafi sagst ætla að segja sig frá öllum málum sem snerti Samherja sem hafi fimmtung alls kvóta á landinu. Önnur fyrirtæki þurfi að lúta niðurstöðum sem kunni að vera Samherja í vil.  „Þannig að maður þarf að spyrja sig, ætlar hann ekki að segja sig frá öllu kvótakerfinu og er þá mikið eftir af starfi sjávarútvegsráðherra.“

Smári telur málið skaða orðspor Íslands. „Þetta gerir það óneitanlega. Það er spurning hvort okkar góða uppbyggingarstarfi víða í Afríku sé teflt í hættu vegna þess að nú gætu einhver lönd haldið að við séum á einhvern hátt að undirbúa jarðveginn fyrir einhvers konar misnotkun í framtíðinni. Ég held að eitt af því sem við gætum gert væri að fara í samvinnu við ríkisstjórn Namibíu um að reyna að bæta þann skaða sem við höfum valdið. Vegna þess að við erum ekki á þessu FATF-lista fyrir tilviljun. Þetta er kerfisbundin linkind gagnvart spillingu.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV