Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samfylkingin og Vinstri græn tapa fylgi

02.01.2020 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Bæði Samfylkingin og Vinstri græn tapa fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Færri styðja ríkisstjórnina nú en fyrir mánuði síðan. Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkurinn með tæplega 23 prósenta stuðning.

Ef gengið yrði til kosninga nú fengi Vinstri hreyfingin – grænt framboð aðeins 10,7 prósent atkvæða á landsvísu, miðað við Þjóðarpúls Gallups 2. janúar 2020. Flokkurinn fékk 16,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017. Flokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi í Þjóðarpúlsinum síðustu misseri.

Samfylkingin tapar einnig fylgi í nýju könnuninni. Flokkurinn nýtur nú 13,9 prósents stuðnings en hafði mælst með um 17 prósent í haust. Sjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælastur meðal kjósenda og fengi 22,7 prósent atkvæða ef gengið yrði til Alþingiskosninga nú.

Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallups

Þjóðarpúls Gallups 2. janúar 2020 samanborið við kosningaúrslit 2017.

Sjálfstæðisfl.
25,3%
22,7%
Samfylkingin
12,1%
13,9%
Miðflokkurinn
10,9%
12,7%
Viðreisn
6,7%
12,0%
Píratar
9,2%
11,3%
Vinstri græn
16,9%
10,7%
Framsóknarfl.
10,7%
8,6%
Fl. fólksins
6,9%
4,3%
Sósialistafl.
0%
3,3%
Aðrir
0%
0,3%

Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. desember til 1. janúar 2020. Heildarúrtaksstærð var 8.511 og þátttökuhlutfall var 52,8%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,2-1,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Miðflokkurinn mælist nú með 12,7 prósenta fylgi á landsvísu sem er aðeins meira en í síðasta Þjóðarpúlsi sem birtur var í byrjun desember. Viðreisn mælist með 12 prósenta fylgi á landsvísu og hefur ekki notið meiri stuðnings undanfarna 12 mánuði.

Píratar njóta stuðnings 11,3 prósenta kjósenda og Framsóknarflokkurinn 8,6 prósent, miðað við Þjóðarpúlsinn. Flokkur fólksins mætti ekki eiga von á að fá þingmann kjörinn enda mælist flokkurinn með 4,3 prósenta stuðning á landsvísu. Miðað er við að framboð þurfi að fá minnst fimm prósent atkvæða á landsvísu til þess að fá mann kjörinn.

Sósíalistaflokkur Íslands fengi 3,3 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú.

47% styðja ríkisstjórnina

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um þrjú prósentustig síðan í síðasti Þjóðarpúls var gerður fyrir mánuði síðan. 47 prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni segjast styðja ríkisstjórnina. Samanlagður stuðningur við ríkisstjórnarflokkana þrjá, Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkinn, er hins vegar rétt ríflega 42 prósent.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar milli þjóðarpúlsa.

Séu niðurstöður könnunarinnar notaðar til þess að reikna út þingmannafjölda á landsvísu má gera ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi samtals 16 þingmenn kjörna úr öllum kjördæmum. Samfylkingin og Miðflokkurinn fengju níu þingmenn hvor og Píratar og Viðreisn fengju átta þingmenn hvor.

Stjórnin félli

Aðeins sjö Vinstri grænir þingmenn næðu kjöri miðað við Þjóðarpúlsinn og aðeins sex Framsóknarmenn. Væru þetta niðurstöður kosninga er ljóst að ekki væri hægt að mynda meirihlutastjórn með stjórnarflokkunum þremur. Minnst þrjá þingmenn vantar upp á.

Mikill munur milli kjördæma

Mikill munur er á fylgi við framboð eftir kjördæmum. Munurinn á stuðningi við einstaka framboð milli kjördæma er einna mestur meðal stuðningsmanna Viðreisnar. Flokkur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur nýtur mun meiri stuðnings í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu. 19 prósent svarenda í Reykjavíkurkjördæmi norður segjast mundu kjósa Viðreisn. 13,1 prósent kjósenda í hinu Reykjavíkurkjördæminu ætla að kjósa Viðreisn, og 13,2 prósent í Suðvesturkjördæmi. Á landsbyggðinni er stuðningurinn á bilinu 4-10 prósent.

 

Lítill Framsóknarflokkur í borginni

Svipaða sögu er að segja af kjördæmamuni á stuðningi við Framsóknarflokkinn, nema stuðningur við hann er lang mestur í landsbyggðakjördæmunum þremur. Í Norðausturkjördæmi segjast 17,5 prósent svarenda ætla að kjósa Framsóknarflokkinn og 15,1 prósent í Norðvesturkjördæmi. Í formannskjördæminu Suðurkjördæmi ætla 13 prósent að kjósa Framsókn. Það er samanborið við ríflega fimm prósent stuðning í höfuðborginni.

19,4% styðja Bergþór og félaga

Miðflokkurinn nýtur mests stuðnings í Norðvesturkjördæmi. Þar er Bergþór Ólason oddviti Miðflokksins. 19,4 prósent mundu greiða Miðflokknum atkvæði sitt í því kjördæmi ef gengið yrði til kosninga nú. Í formannskjördæminu í norðaustri segjast 16,9 prósent ætla að kjósa Miðflokkinn, svipað margir og í Suðurkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í samanburði nokkuð mikils stuðnings í öllum kjördæmum. Hann er vinsælastur í Suðvesturkjördæmi þar sem 30,1 prósent kjósenda segjast mundu greiða flokknum atkvæði sitt. Þar er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, oddviti.

Minnstur er stuðningurinn við flokkinn í Norðausturkjördæmi þar sem aðeins 15,2 prósent kjósenda styðja flokkinn. Þar er Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra oddviti. Rýrð hefur verið kastað á hæfi hans eftir að greint var frá efni Samherjaskjalanna svokölluðu vegna þess að Kristján Þór og Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, eru trúnaðarvinir.