Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samfylkingin hækkar sig, Miðflokkurinn tapar

02.12.2017 - 17:56
Mynd með færslu
Þingflokkur Samfylkingarinnar er á fundi í þinghúsinu. Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV
Samfylkingin bætir við sig fylgi en Miðflokkurinn tapar frá síðustu kosningum, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Samfylkingin mælist með næst mest fylgi allra flokka.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi í þjóðarpúlsinum eða 24%, sem er örlítið minna en í kosningum þegar fylgið mældist 25,3%.

Samfylkingin bætir töluverðu við sig, er með 16,7% en var með 12,1% í kosningunum.

Vinstri græn koma þar skammt undan með rúm 16,1%, litlu minna en í kosningunum þar sem flokkurinn fékk 16,9%.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Píratar og Framsóknarflokkurinn mælast með sama fylgi, 10,4%. Píratar bæta lítillega við sig, voru með 9,2% í kosningunum, en Framsókn stendur nánast í stað, var með 10,7%.

Viðreisn mælist með 7,1% sem er örlítil aukning frá kosningum þegar flokkurinn fékk 6,8% fylgi. 

Miðflokkurinn tapar fjórum prósentustigum, mælist með 6,8% en var með 10,9% í kosningunum.

Flokkur fólksins er með 6,5% og tapar lítillega, var með 6,9% í kosningunum.

Aðrir flokkar mælast með rúm tvö prósent, þar af Björt framtíð með rúmlega eitt prósent. 5% tóku ekki afstöðu og nær 5% sögðust myndu skila auðu eða kjósa ekki. Fylgisbreytingar annarra en Samfylkingarinnar og Miðflokksins eru innan vikmarka. 

Könnunin var gerð dagana 8.-30. nóvember en allan þann tíma stóðu yfir stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, fyrst óformlegar og síðan formlegar. Tæplega fjögur þúsund manns voru í úrtaki Gallup og var svarhlutfall 57,8%.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV