Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samfélagssvín eiga að éta úrgang á Borgarfirði

15.05.2019 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Íbúar á Borgarfirði eystra ætla að koma sér upp samfélagssvínum og berjast þannig gegn loftslagsbreytingum. Svínin éta lífrænt rusl sem annars hefði rotnað og myndað metan sem er skæð gróðurhúsalofttegund.  Borgfirðingar hugsa sér gott til glóðarinnar og ætla jafnvel að arga þeim á skógarkerfil.

„Við höfum aldrei talið mjög skynsamlegt að keyra lífræna sorpinu minnst 70 kílómetra þannig að það hefur verið urðað hér. Það er náttúrulega ekki eins og það á að vera. Svo kom þessi hugmynd; En að láta bara svín éta lífræna úrganginn. Það er nú bara þannig að eftir því sem maður hugsar það meira þeim mun meiri snilld er það,“ segir Helgi Hlynur Ásgrímsson en hann situr í umhverfisnefnd Borgarfjarðarhrepps.

Svín hafa reyndar áður þekkst á Borgarfirði, þau fengu afganga frá veitingastöðum en nú hafa Borgfirðingar stofnað félag um það sem þeir kalla samfélagssvín. Þau eru væntanleg í haust og eiga að graðga í sig lífrænan úrgang frá heimilum. Þá verða þau einnig höfð til sýnis og jafnvel látin ráðast á skógarkerfil sem er til ama. Sótt var um styrki í verkefnið enda kostar töluvert að koma upp góðri aðstöðu fyrir svín. Þau eiga að geta hlaupið um og flokkast sem svokölluð „hamingjusvín“.

Helgi Hlynur segir að Borgfirðingar hafi ekki enn komið sér saman um hvað verði um svínin. Ekki megi selja kjötið. „Reglugerðirnar gera það ofboðslega erfitt fyrir svínabændur að nýta matarafganga, brauð eða grænmeti eða hvað sem er. Þannig að megnið af svínunum á Íslandi er fóðrað á innfluttu fóðri. Ég sé fyrir mér að við þurfum að breyta svoleiðis rugli.“

Þrátt fyrir þetta verði svínin á Borgarfirði vafalítið étin með einum eða öðrum hætti. „Ég sá alltaf fyrir mér síðustu myndina í Ástríksbókunum. Þar sem allir þorpsbúar sitja saman og halda veislu. Öfugt við það sem nútíminn segir að kjöt sé frá hinum illa, þá þarf það ekkert að vera. Þarna er verið að taka efni sem myndi skilja eftir sig stórt umhverfisfótspor og breyta því í kjöt,“ segir Helgi Hlynur.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV