Samfélagsmiðlar ekki svo ólíkir póstkortum

18.02.2020 - 10:02
Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason / RÚV
Eftir því sem virkni fólks á samfélagsmiðlum er meiri, því meiri upplýsingar skilur það eftir sig og þær hverfa aldrei, að sögn Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar. Hún segir gott að meðhöndla samfélagsmiðla eins og póstkort í gamla daga, það er að hafa í huga að það sem skrifað er í þau geti komið fyrir augu annarra.

„Þess vegna er svo svakalegt að heyra hvernig unga fólkið virðist vera að haga sér þegar það er að senda til dæmis myndir af viðkvæmustu pörtunum á milli hvors annars og halda að þetta séu einkasamræður. Að þetta séu einkasamræður á miðli sem býður upp á ókeypis þjónustu. Ekki senda þessar myndir sem eru persónugreinanlegar niður á ykkur. Þið eruð ekki í einkasamræðum við kærustu eða kærasta,“ sagði Helga í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Í gamla daga hafi verið brýnt fyrir fólki, þegar það sendi póstkort, að hafa í huga að fleiri en viðtakendur gætu hugsanlega lesið textann. Góð regla sé að hugsa þannig um alla hegðun á samfélagsmiðlum. 

Samskipti eru aldrei einkasamtöl á samfélagsmiðlum

Hún sagði brýnt að fólk hafi í huga að með því að setja upplýsingar um sig á Facebook sé það að gefa samfélagsmiðlinum leyfi til þess að nota þær upplýsingar. „Eins og við höfum sagt áður, og ég held að sé nauðsynlegt að segja aftur, að fólk er enn þá að telja sig bara vera í einkasamræðum við fjölskyldu og vini. Það er náttúrulega aldrei þannig vegna þess að það er alltaf verið að nota tæki og tól stórfyrirtækisins Facebook sem hefur atvinnu af því að rýna upplýsingarnar sem við setjum þarna inn,“ segir Helga. 

Níu af hverju tíu Íslendingum á fullorðinsaldri er á Facebook en Helga tilheyrir minnihlutanum sem notar ekki samfélagsmiðilinn. Hún telur að það sé helst fólk sem vinnur við persónuvernd og tæknimenntað fólk, sem veit hvernig tæknin er notuð gegn fólki, sem ákveður að vera ekki á Facebook.

Greina fólk og hópa

Hjá Facebook eru upplýsingarnar sem fólk setur inn greindar og búið er til persónusnið af hverjum og einum, segir Helga. „Það þýðir bara hvaða málefni er undir í hvert sinn, þá er möguleiki að greina okkur algjörlega í öreindir og alveg í hörgul. Þetta er svo langt frá því að vera eitthvað grín.“ Tæknirisarnir hafi greint þjóðir heims í 52.000 mismunandi hegðunarmynstur. „Við erum að sjá breytta heimsmynd eftir því hvernig við erum búin að skila sporin eftir okkur.“

Sögur á samfélagsmiðlum geta haft miklar afleiðingar

Þessi söfnun persónuupplýsinga getur því bæði haft áhrif á heildina og á einstaklinga. Helga segir að á meginlandi Evrópu sé það þannig að ef slæm saga um fólk fari af stað á samfélagsmiðlum, þá geti það gert ráð fyrir því að komast ekki inn í þá háskóla sem það vill komast inn í. Sömu sögu sé að segja um umsóknir um eftirsóknarverð störf. Þessa áhrifa gæti ekki eins mikið á Íslandi. 

Hvað áhrifin á heildina varðar þá er vitað að fyrir kosningar í Bretlandi og Bandaríkjunum voru upplýsingar um fólk af samfélagsmiðlum nýttar til að dreifa áróðri til valinna hópa. Þá segir Helga að víða um heim nýti stjórnmálaflokkar sér þennan möguleika til að ná til öfgahópa, til dæmis með því að birta stutt skilaboð um að fólk eigi annað hvort eða gera eða gera ekki eitthvað. „Þetta er farið að hafa áhrif á það hverjir stjórna löndum til fjögurra ára.“

Helga kveðst undra sig á því að fólk leitist ekki eftir samfélagsmiðlum sem bjóði upp á að fólk geti nýtt hann án þess að upplýsingar um það séu á einhvern hátt nýttar. Það sé ágætt að hafa í huga að ef fólk þurfi ekki að greiða fyrir slíka þjónustu þá sé það sjálft varan. Fjöldinn geti haft mikil áhrif og gert kröfur.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi