Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Samfélagið myndi loga án skýrslunnar

12.04.2015 - 19:02
Mynd: RÚV / RÚV
Allt myndi loga í deilum og óvissu enn þann dag í dag, hefði Alþingi ekki látið taka saman rannsóknarskýrsluna um bankahrunið, segir Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Fimm ár eru í dag síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út. Nefndin taldi að fall bankanna yrði fyrst og fremst rakið til þess hve hratt þeir uxu á uppgangsárunum, með tilheyrandi áhættu.

Í níu bindum er rakin saga uppgangs og falls íslensku bankanna, allt frá einkavæðingunni upp úr aldamótum, og þar til Kaupþing féll, síðastur bankanna, aðfaranótt 9. október 2008. Líklega hafa fáir lesið skýrsluna spjaldanna á milli, en það sem þar stendur hefur haft mikil áhrif, þótt mörgum séu eflaust ferskastar í minni tilvitnanir um gullúr, snúða og „ógeðslegt samfélag“. En hverju hefur skýrslan skilað íslensku samfélagi?

„Hefði hún ekki verið samin, ímyndum okkur það, þá væri hér ennþá allt logandi í deilum og óvissu um það sem gekk á,“ segir Guðni Th. Jóhanneson. „Þarna fáum við þó að vita um þau háskalegu lán sem voru veitt án veða, án ábyrgða og þannig fram eftir götunum, krosseignatengslin sem var reynt að fela, allt sem gekk á innan bankanna og miður fór.“

Þá hafi verið fjallað um viðvaranir í aðdraganda hrunsins, andvaraleysi ráðamanna og veikleika kerfisins. „Allt þetta var nauðsynlegt til þess að byggja upp traust, eða að minnsta kosti að hefja þá vinnu.“

Alþingi fjallaði um skýrsluna og ákvað að draga Geir Haarde fyrir landsdóm. Hann var sýknaður af öllum ákæruatriðum, nema einu, og var ekki refsað. 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV