Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Samfélagið líður fyrir stjúpblindu“

04.01.2016 - 17:35
Mynd: pixabay.com / pixabay.com
Stór hluti íslenskra barna á aðild að stjúpfjölskyldu en samfélagið er blint á það. Stjúptengsl eru ekki skráð hjá hinu opinbera og félagslegur stuðningur við stjúpfjölskyldur er ónægur. Þetta segir Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi sem hefur sérhæft sig í stjúptengslum. Stjúpbörnum er hlutfallslega oftar beint í sértæk úrræði á vegum Barnaverndarstofu en öðrum börnum.

 Stór hluti barna tilheyrir stjúpfjölskyldum

„Ég var að skoða tölur yfir tímabilið frá 1994 til 2011 og þar kemur í ljós að 41,8% barna hafa fæðst hjá einhleypri móður, farið í gegnum sambúðarslit með foreldrum eða skilnað. Það er svipað hlutfall milli þessara þriggja þátta. VIð getum því gert ráð fyrir því að mjög stór hluti barna hér á landi tilheyri stjúpfjölskyldum. Ef við skoðum þetta frá annarri hlið, þá vitum við að skilnaðir hér eru nokkuð algengir og fólk fer tiltölulega fljótt í ný sambönd. Það er íslensk rannsókn, reyndar frá 2008, sem sýnir að fjórðungur fólks er kominn í samband innan árs og um 70% innan fjögurra ára. Þannig að það eru mjög margir sem tengjast stjúptengslum á einn eða annan hátt,“ segir Valgerður. 

Ekki algengari hér

Hún telur stjúptengsl ekki algengari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og bendir á að skilnaðartíðni í Danmörku og Svíþjóð er hærri en hér. 

Tölfræðina skortir

Hagstofan skráir stjúptengsl ekki sérstaklega. Skráð er hvort á heimilinu er einn fullorðinn eða tveir og hvort þeir eru giftir eða skráðir í sambúð. Þá er skráð hvort á heimilinu eru börn eða ekki.  Í fyrra voru tæplega 13 þúsund skráðir sem einhleypir foreldrar. „Foreldrar eru skráðir einhleypir en inni á heimilinu eru kannski börn sem eru hálfsystkini, eiga tvo, þrjá feður eða mæður. Það eru börn sem hafa áður verið í stjúpfjölskyldum. Erlendis er farið að tala um slíkar fjölskyldur sem stjúpfjölskyldur.“

Segir þörf á meðvitund og almennri umræðu

Valgerður segir sjaldnast gert ráð fyrir þessum tengslum. Samfélagið sé stjúpblint. „Við erum ekki með þetta í rannsóknum, það er ekki gert ráð fyrir því hjá bönkum eða fyrirtækjum að það séu stjúpfjölskyldur. Það er í raun verið að senda stórum hluta fjölskyldna og barna þau skilaboð að þau tilheyri ekki alveg og það eru mjög vond skilaboð.“

Missir og hollustuklemmur

Valgerður vill að stefnumótun stjórnvalda taki í auknum mæli mið af stjúptengslum, þá þurfi að gera ráð fyrir þessum tengslum í skólakerfinu og opna umræðuna almennt. „Spyrja til dæmis, hefur þú heyrt í barninu þínu í vikunni. Mörg börn sem tilheyra stjúpfjölskyldum eða búa hjá einhleypu foreldri tékka á foreldrum sínum, skyldi hann eða hún hringja ef ég hringi ekki. Sumir segja hann má bara koma ef hann vill. Þarna er verið að varpa ábyrgðinni yfir á börnin. Foreldrið ber ábyrgð fyrst og fremst en stundum eru samskiptin erfið og foreldrar jafnvel fegnir þegar þau eru lítil því þau reyna svo á.“

Stjúpfjölskyldur glíma við ýmsar áskoranir. „Þeir sem fara inn í stjúpfjölskyldur hafa orðið fyrir einhvers konar missi og börnin eru ekki alltaf á sama stað og foreldrið. Það er kannski bara mjög ástfangið og ánægt með sitt nýja samband. Börnin eru ósátt, sum hver. Þau geta verið ánægð með stjúpforeldrið en geta samt sem áður upplifað missi og hollustuklemmur. Það er að segja, minni tíma og athygli frá foreldri og velt því fyrir sér hvort þau séu að svíkja pabba og mömmu, ef þeim þykir vænt um stjúpforeldrið. Þetta eru þessi flóknu verkefni,“ segir Valgerður. 

Aðkoma stjúpforeldra mikilvæg

Foreldrar sem slitið hafa samvistum fara í langflestum tilvikum sameiginlega með forsjá barna þeirra. Oft búa börnin til skiptis á heimilum þeirra þrátt fyrir að eiga aðeins eitt lögheimili.

Valgerður segir oft þörf á því að þriðji aðili aðstoði foreldra við að semja um umgengni eftir skilnað. Hún sinnir sjálf slíkri samningagerð. „Ef fólk á erfitt með að eiga þessi samskipti við gerð samninga á milli heimilaþá reynir maður að taka tillit til sjónarmiða beggja foreldra en ekki bara þeirra heldur líka stjúpforeldra. Það er svo mikilvægt að þeir eigi einhverja aðkomu að þessum samningum. Það er verið að semja um sumarfrí þeirra rétt eins og foreldra og barna. Svo þarf líka að gæta hagsmuna barnanna og horfa til sjónarmiða þeirra.“ 

Tíð sambandsslit erfið

Börn foreldra sem ganga í gegnum mörg sambandsslit eignast hvert stjúpforeldrið á eftir öðru. Valgerður segir þetta áhættuþátt. Allur gangur sé á því hvort barnið haldi áfram að umgangast fyrrum stjúpforeldri eftir skilnað. „Það er erfitt ef fyrrverandi stjúpforeldri og foreldri eru ekki í neinum samskiptum en stjúpforeldri og barn geta myndað mjög sterk tengsl og það getur verið mikill missir fyrir barn að missa stjúpforeldri úr lífi sínu. Þess vegna er mikilvægt að finna þessum tengslum einhvern farveg. Bjóða í bíó eða á kaffihús eða eitthvað. Stundum fjara samskiptin út en stundum vara þau alla ævi, jafnvel þó að það sé komið nýtt stjúpforeldri til sögunnar.“

 Frekar beint í þung úrræði á vegum Barnaverndarstofu

Unglingum sem alast upp í stjúpfjölskyldum er frekar beint í ítrustu úrræði á vegum Barnaverndarstofu en unglingum sem alast upp hjá báðum kynforeldrum. Í ársskýrslu Barnaverndarstofu frá árinu 2014 kemur fram að tæpur fimmtungur barna á aldrinum 13 til 18 ára sem vísað er á meðferðarheimili eða í svokallaða fjölkerfameðferð elst upp hjá kynforeldrum sínum. Rúmlega fjórðungur þeirra elst upp hjá kynforeldri og stjúpforeldri en tæpur helmingur hjá einstæðu foreldri.

Ekki er til tölfræði yfir fjölskyldugerð barna í tímabundnu og varanlegu fóstri. Árið 2014 voru 357 börn í fósturkerfinu. 

Barnaverndarstofa sendir börn úr stjúpfjölskyldum hlutfallslega oftar í frekari úrræði, eftir að hafa rannsakað mál þeirra, en börn sem alast upp hjá báðum kynforeldrum eða hjá einstæðum foreldrum. Valgerður segir tölfræðina vekja upp ýmsar spurningar. Hún spyr sig hvort stjúpbörn glími frekar við alvarlegan hegðunar- eða fíkniefnavanda en önnur börn eða hvort þau fái betri þjónustu hjá Barnaverndarstofu. Hún flytur erindi um þetta síðar í þessum mánuði. 

Stjúptengslin ekki grundvallarorsakaþáttur

Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu, segir erfitt að skýra muninn en bendir á að hópurinn sem beint sé í úrræði sé tiltölulega fámennur, í fyrra var 59 stjúpbörnum beint í sértæk úrræði. 
Hún segir að það sé þekkt að fjölskyldugerð geti haft áhrif á líðan og aðstæður barna, því fleiri sem álagsþættirnir séu því meiri líkur séu á því að barnaverndaryfirvöld þurfi að hafa afskipti af barninu. Stjúptengsl séu vissulega álagsþáttur en hún telur þau ekki orsaka alvarlegan hegðunarvanda ein og sér.„Það er þannig að þegar börn þurfa á að halda þessum ítrustu úrræðum í barnaverndarkerfinu þá er yfirleitt um að ræða samansafnaða álagsþætti og flókið samspil sem skýrir það að þau þurfa á þeim að halda.“

Oft glími foreldrar þessara barna við vímuefnavanda eða eigi við geðræna erfiðleika að stríða og sá vandi foreldranna geti leitt til þess að þeir skilji við maka og taki saman við nýjan.

Ekki jafn sterk tilfinningatengsl

Steinunn bendir á að stjúpforeldri hafi almennt ekki jafnsterk tilfinningatengsl við börnin og kynforeldrar þeirra og þeir séu því hugsanlega ekki tilbúnir til þess að sætta sig við jafn erfiða hegðun á heimilinu og kynforeldrarnir.
Loks nefnir hún að börn sem ekki fá reglubundna umgengni við báða foreldra sína, annað hvort vegna umgengnistálmana eða afskiptaleysis, glími gjarnan við eftirköst þess á unglingsárunum. Hún segir kerfið og samfélagið allt þurfa að vera vakandi fyrir álagsþáttum í lífi barna. Stjúptengsl ein og sér réttlæti þó ekki sérstakan stuðning. 

 

 

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV