Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samfélag sem vængstýfir næmt og skapandi fólk

Mynd: RÚV / RÚV

Samfélag sem vængstýfir næmt og skapandi fólk

07.11.2018 - 20:10

Höfundar

Auður Ava Ólafsdóttir, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018, hefur sent frá sér nýja skáldsögu. Í henni fjallar hún um skáld sem aldrei varð til. „Ég stóðst ekki mátið að búa til frumlegan kvenrithöfund sem gæti hafa verið til ef samfélagið hefði verið öðruvísi.“

Ungfrú Ísland er sjötta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur, sem í síðustu viku hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Bókin gerist árið 1963 og fjallar um unga konu sem kemur til Reykjavíkur með nokkur skáldsagnahandrit í töskunni. „Þetta er bók sem fjallar um sköpunarþrána og fegurðarþrána og hvernig hún birtist hjá fjórum ungmennum á mismunandi hátt á þessum tíma,“ segir Auður Ava í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni.

„Söguhetjan mín er ung skáldkona, Hekla Gottskálksdóttir sem kemur í bæinn með nokkur handrit í töskunni. Það má segja að það sé meiri eftirsókn eftir líkama hennar en því sem hún hefur að segja, sem hún hefur að skrifa og fram að færa.“ Titillinn Ungfrú Ísland vísar í viðhorf samfélagsins til konunnar en einnig sambands Íslands við umheiminn. „Að taka þátt í fegurðarsamkeppni var leið til að komast til útlanda, eins og að vera flugfreyja. Önnur aðalsöguhetja bókarinnar er kynvillingur eða hómósexúalisti og það má kannski segja að kjarninn í bókinni sé þeirra vinasamband. Á þessum tíma flúðu menn land vegna kynhneigðar, en spurningin er hvert flýr skáld? Af því að móðurlandið þess er tungumálið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Auður vill með bókinni búa til nýja hugmynd um skáldið og gerir um leið grín að Mokkaskáldum svokölluðum, karlmönnum sem „fæðast sem skáld“. „Eins og eitt karlkynsskáldið segir í bókinni: það fer svo mikill tími í að vera skáld. En hjá söguhetjunni minni þá fer enginn tími í það að vera skáld – bara í það að skrifa.“ 

Auður segist hafa viljað svara listamanni sem hafi á sama tíma og bókin gerist spurt að því af hverju svona fáir kvenrithöfundar væru til á Íslandi og allar lélegar. „Mig langaði til að svara þessu og með vísun í samfélagið og hvernig ekki var gert ráð fyrir kvenrithöfundum. Ég stóðst ekki mátið að búa til frumlegan kvenrithöfund sem gæti hafa verið til ef samfélagið hefði verið öðruvísi. Þetta er líka bók um hvernig samfélagið vængstýfir skapandi, viðkvæmt og næmt fólk.“

Kápa bókarinnar hefur vakið athygli. Ólafur Kristjánsson hannar hana og segir Auður hana vísun í þekkta kápu Gísla B. Björnssonar, Helgafellskápu frá 1962. „Laxnesskápu hvorki meira né minna, með góðu leyfi Gísla,“ segir Auður. „Ólafur var nemandi Gísla, þannig að þetta er samtal nemanda. Það var þessi hugmynd að nota leturgerðina og líka sú að söguhetjan, skáldkonan Helga Gottskálksdóttir er þarna að fá sína Helgafellskápu sem hún fékk aldrei á sínum tíma.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Listaverk með sterkan boðskap verðlaunuð

Bókmenntir

Skandínavar sjá myrkur en suðrænar þjóðir ljós

Menningarefni

Tileinkar þýðendum verðlaunin

Bókmenntir

Auður fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs