Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sameinuðu þjóðirnar fordæma mannréttindabrot í Mjanmar

28.12.2019 - 07:10
epa06198381 Rohingya refugees wait to receive relief goods during hot weather in Ukhiya, Cox's Bazar, Bangladesh, 11 September 2017. Rohingya refugees experience huge problems to find shelters as they stay on the streets, inside small forest and in
Róhingjar á flótta Mynd: EPA
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær ályktun þar sem brot á mannréttindum Róhingja og annarra minnihlutahópa í Mjanmar eru fordæmd. Í ályktuninni eru stjórnvöld í Mjanmar jafnframt brýnd til að stöðva þann hatursáróður sem viðgengst í landinu gegn Róhingjum og öðrum minnihlutahópum.

Lýst er þungum áhyggjum af viðvarandi flótta Róhingja frá Mjanmar til Bangladess síðustu ár og áratugi, sem hafi náð áður óþekktum hæðum eftir grimmdarverk stjórnarhersins í Rakhinehéraði árið 2017.  Yfir 700.000 Róhingjar flýðu til Bangladess í eftirleik þeirra voðaverka.

Alvarlegustu glæpir sem fjallað er um í alþjóðalögum

Raktar eru helstu niðurstöður sjálfstæðrar, alþjóðlegrar rannsóknarnefndar sem komst að því að Róhingja-múslímar og fleiri minnihlutahópar hefðu mátt þola „gróf mannréttindabrot og misþyrmingar“ frá hendi hers og lögreglu; brot, sem nefndin lýsir sem „alvarlegustu glæpum sem fjallað er um í alþjóðalögum.“

Í ályktuninni eru stjórnvöld hvött til að tryggja öllum trúar- og þjóðfélagshópum vernd og sjá til þess að réttlætið nái fram að ganga hvar sem mannréttindi fólks hafa verið fótum troðin.

Klassískt dæmi um tvöfalt siðgæði

Ályktunin var samþykkt með atkvæðum fulltrúa 134 þjóða, níu voru á móti en 28 sátu hjá. Ályktanir sem þessar hafa engin bindandi áhrif á þjóðirnar sem þeim er beint gegn og engin viðurlög eru við því að fara ekki eftir þeim tilmælum sem í þeim eru.

Sendiherra Mjanmar hjá Sameinuðu þjóðunum, Hau Do Suan, segir ályktunina „enn eitt klassískt dæmi um tvöfalt siðgæði og valkvæða og óréttláta beitingu mannréttindahugtaksins.“ Ályktunin er að hans mati sett fram til að beita Mjanmar „óvelkomnum, pólitískum þrýstingi“ í stað þess að leita lausnar á þeirri flóknu stöðu sem uppi er í Rakhinehéraði.