Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sameiningarstyrkur ofáætlaður um 140 milljónir

09.09.2019 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Áætlaður sameiningarstyrkur til fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi var ofáætlaður um 140 milljónir í sameiningarskýrslu. Formaður sameiningarnefndar segir þetta ekki ráða úrslitum og endanleg upphæð ráðist af stöðu sveitarfélaganna um næstu áramót.

Á Austurlandi verður kosið um sameiningu fjögurra sveitarfélaga 26. október, Borgarfjarðar eystri, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar. Verði samþykkt á öllum stöðum standa eftir tvö stór sveitarfélög á Austurlandi; nýja sveitarfélagið og Fjarðabyggð. Einnig tvö minni; Fljótsdalshreppur þar sem 74 höfðu lögheimili um áramót og Vopnafjarðarhreppur með 660 íbúa. Meirihluti íbúa í þessum sveitarfélögum sagðist enga sameiningu vilja í íbúakönnun snemma á síðasta ári. Hins vegar stefnir í þvingaða sameiningu nema takist af hífa íbúafjöldann upp í þúsund. Líklegast er að Fljótsdalshreppur yrði sameinaður Fljótsdalshéraði eða hinu nýja sveitarfélagi. Vopnafjörður þyrfti að gera upp við sig hvort hann vildi sameinast til norðurs eða austurs.

Ef Fljótsdalshreppur sameinast öðru sveitarfélagi fengist, samkvæmt drögum að nýjum reglum, aðeins lágmarksstyrkur upp á 100 milljónir, strípað grunnframlag til að uppfæra stjórnsýslu. Ef Vopnafjarðarhreppur myndi sameinast öðrum fengjust 292 milljónir. Auk grunnframlags kæmu um 140 milljónir til skuldajöfnunar og um 50 milljónir vegna íbúafækkunar.

Verði stóra sameiningin samþykkt á Austurlandi 26. október fengi nýtt sveitarfélag rúmlega 1,1 milljarð samkvæmt drögum að reglum um sameiningarstyrki en í sameiningarskýrslu síðan í júní kom fram að það fengi meira eða um 1,3 milljarða í viðbótarframlög úr jöfnunarsjóði. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótadalshéraði og formaður sameiningarnefndar, segir að nefndin hafi lagst yfir útreikningana og sýnist að miðað við drögin að nýjum reglum muni um 140 milljónum.  Áætlunin sem skýrslan byggði á hafi miðast við ársreikninga og jafnvel áætlanir sveitarfélaganna fyrir árið 2018. Skuldajöfnunarframlagið sé lægra samkvæmt nýju reglunum en það ráði ekki úrslitum. Endanleg styrkupphæð miðast við ársreikninga 2019.