Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar

13.06.2019 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Skipað hefur verið í samstarfsnefnd sem á að kanna ávinning af sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Tillaga að nefndinni var samþykkt samhljóða af báðum sveitarfélögum í morgun. Nýtt sveitarfélag verður það stærsta á landinu að flatarmáli, komi til sameiningar.

Í tilkynningu frá sveitarstjórnunum tveimur segir að markmið nefndarinnar sé að kortleggja sameiningu sveitarfélaganna með það fyrir augum að hún leiði til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og aukins slagkrafts við að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum.

Þar segir einnig að það sé mat sveitastjórnanna að skynsamlegt sé að sveitarfélögin hefji formlegar sameiningarviðræður og að tillaga um sameiningu verði svo lögð fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu og valdið þar með sett í hendur þeirra. Tillagan á að verða unnin með virkri þátttöku íbúa, m.a. á íbúafundum þar sem rætt verður um um tækifæri og áskoranir sem gætu falist í sameiningu.

Aukin þjónusta

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps segir að sveitarfélögin hafi átt í farsælu samstarfi í ýmsum málum. Þetta séu landstór sveitarfélög sem sinni sambærilegum viðfangsefnum gagnvart íbúum og ríkinu. Þjónustustigið sé býsna hátt og þau standi bæði nokkuð vel. Hann telur að í hugsanlegri sameiningu geti verið tækifæri til að styrkja innviði og þar með verði hægt að auka þjónustu til muna. 

Að ýmsu sé að huga og í svona ferli komi upp viðfangsefni eins og skólamál, fjallskilamál, staðsetning þjónustukjarna og fleira. Nefndin sem hafi verið skipuð búi yfir mikilli reynslu og og verkefni hennar á næstunni séu að kortleggja helstu viðfangsefni, gera verkáætlun og setja nákvæma tímaramma. Þá séu þau búin að tryggja sér ráðgjafa til að vinna þessa greiningu eins vel og kostur er.

Stendur og fellur með íbúum

Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar segir að ferlið eigi eftir að einkennast af miklu samráði við íbúa. Allt ferlið standi og falli með þeim og vonast hann til að íbúarnir taki virkan þátt í að móta sameiningartillöguna og framtíðarsýnina. Hann sjái mikil tækifæri í sameiningu, þetta sé sóknarfæri og möguleiki á að styrkja stjórnsýsluna. Saman sé hægt að vinna að fjölbreyttari verkefnum. Hann býst við blendnum viðbrögðum frá íbúum sem sé skiljanlegt því fólk bregðist misjafnlega við breytingum. Því sé mikilvægt að eiga góð samtöl og velta öllum hliðum málsins fyrir sér.

Á næstunni verða kynningarfundir fyrir íbúa þar sem sameiningarferlið verður kynnt og gefst íbúum þar tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Nefndin hefur 18 mánuði til að skila áliti sínu. Að því loknu verður íbúakosning um sameiningu.