Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sameining ekki allstaðar galdralausn

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Sveitarstjórinn í Grýtubakkahreppi segir að stærri sveitarfélög séu að ákveða hvað sé þeim minni fyrir bestu með þingsályktunartillögu sem samþykkt var á aukalandsþingi Sambands sveitarfélaga fyrir helgi. Jaðarsvæði eigi undir högg að sækja. Sameining muni ekki breyta því.

Á föstudag var samþykkt á aukalandsþinginu þingsályktunartillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um framtíðarsýn sveitarfélaga. Þar eru meðal annars ákvæði um að íbúar í hverju sveitarfélagi skuli ekki vera færri en eitt þúsund árið 2026. Sú lágmarkskrafa þrýstir á að sveitarfélög sameinist.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi segir að stærri sveitarfélög séu með þessu að ákveða hvað sé þeim minni fyrir bestu.

„Almennt eru minni sveitarfélögin mótfallin, en aðstæður eru mismunandi á hverjum stað.  Sem dæmi getum við nefnt að Strandasýsla í heild nær ekki þúsund íbúa markinu. Vopnafjörður á svo engan sameiningarkost þar sem verður til eitthvað heildstætt sveitarfélag. Svo eru aftur sveitarfélög á Suðurlandi sem liggja saman og eru skipulagslega heildir og eiga ekki erfitt með að sameinast. Þetta er mjög misjafnt,“ segir Þröstur.

Hann telur að til lengri tíma þýði þingsályktunin versnandi búsetuskilyrði fyrir byggðarlög á jaðarsvæðum. Þjónusta við íbúa muni versna með sameiningu.

„Auðvitað erum við ósátt við það að menn telji sig þess umkomnir að vita hvað er þessum byggðum fyrir bestu sem hafa kannski aldrei komið þangað og hafa ekki skilning á þeim aðstæðum,“ segir Þröstur.

1000 íbúa þröskuldurinn óhentugur

Í Austur-Húnavatnssýslu hefur í nokkur ár verið starfrækt nefnd sem á að kanna möguleika á sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Stefnt er að því að kjósa um sameiningu sveitafélaga í Austur- Húnavatnssýslu í seinasta lagi árið 2021. Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd, segir að ályktunin raski þeirri vinnu ekki á nokkurn hátt. Nefndin þurfi að halda vel áfram með þá vinnu ef sveitarfélögin ætli að sameinast á sínum eigin forsendum. Þá vinnu þurfi að vinna af heilindum og á skynsamlegan hátt.  Ályktunin sé að mörgu leyti ágæt. Hins vegar sé þúsund íbúa mælikvarðinn ekki heppilegur alls staðar.
 

„Það eru ýmis sveitarfélög sem liggja landfræðilega mjög langt í burtu frá hvert öðru, svo það verða til fjölkjarnasveitarfélög á mjög dreifðu svæði sem mun kannski ekki verða mjög heppilegt. Það væri miklu eðlilegra að miða við atvinnusóknarsvæði eða einhverja byggðastefnu til að skoða hvar sameining er skynsamleg og hvar ekki,“ segir Alexandra.