Söngvaskáldið Svavar Knútur heldur tónleika í veglegri kantinum í Bæjarbíói í Hafnarfirði 9. maí þar sem hann treður upp með stórhljómsveit og gestasöngvurum. Þar flytur Svavar fjölda laga frá ferli sínum auk laganna á nýjustu plötu hans, Ahoy! Side A. Svavar mætti ásamt fríðu föruneyti í Stúdíó 12 til að hita upp fyrir tónleikana. Með honum eru Örn Ýmir Arason á bassa, Daníel Helgason á rafgítar, Jón Geir Jóhannsson trommari, Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð, Íris Dögg Gísladóttir á fiðlu, Jóhanna Ósk Valsdóttir á víólu og Kristín Lárusdóttir á selló.
Fyrsta lag Svavars og hljómsveitar er lagið Morgunn af plötunni Ahoy! Side A sem var eitt af mest spiluðu lögunum á Rás 2 á síðasta ári. „Þetta lag er samið um börnin mín þegar þau vakna á morgnana, litli fuglinn og litla sálin og svona hvernig þau trítla fram, skríða upp í og tosa okkur hin á fætur. Svo fór ég að hugsa um víðara samhengi á morgnunum, morgnar eru dásamleg augnablik í lífinu,“ segir Svavar um lagið Morgunn.