Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samdi óvart einkennislag crossfit-keppenda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Samdi óvart einkennislag crossfit-keppenda

04.05.2019 - 10:23

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur er vanur að ferðast einsamall um allan heim, vopnaður gítar og ukulele en brátt kemur hann fram á tónleikum með stórhljómsveit. Eitt laganna á nýjustu plötu Svavars hefur óvart orðið að auðkennislagi crossfit-keppninnar í Reykjavík.

Söngvaskáldið Svavar Knútur heldur tónleika í veglegri kantinum í Bæjarbíói í Hafnarfirði 9. maí þar sem hann treður upp með stórhljómsveit og gestasöngvurum. Þar flytur Svavar fjölda laga frá ferli sínum auk laganna á nýjustu plötu hans, Ahoy! Side A. Svavar mætti ásamt fríðu föruneyti í Stúdíó 12 til að hita upp fyrir tónleikana. Með honum eru Örn Ýmir Arason á bassa, Daníel Helgason á rafgítar, Jón Geir Jóhannsson trommari, Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð, Íris Dögg Gísladóttir á fiðlu, Jóhanna Ósk Valsdóttir á víólu og Kristín Lárusdóttir á selló.

Fyrsta lag Svavars og hljómsveitar er lagið Morgunn af plötunni Ahoy! Side A sem var eitt af mest spiluðu lögunum á Rás 2 á síðasta ári. „Þetta lag er samið um börnin mín þegar þau vakna á morgnana, litli fuglinn og litla sálin og svona hvernig þau trítla fram, skríða upp í og tosa okkur hin á fætur. Svo fór ég að hugsa um víðara samhengi á morgnunum, morgnar eru dásamleg augnablik í lífinu,“ segir Svavar um lagið Morgunn.

Mynd: RÚV / RÚV
Morgunn af plötunni Ahoy! Side A.

Hljómplatan Ahoy! Side A inniheldur ekki bara ný lög því hún hefur að geyma eldra efni í nýjum búningi. „Það var eiginlega tilraunin sem mig langaði að gera, að gefa út hálfa plötu í einu á þessum tímum streymis. Þá er eitthvað svo fatalt að vinna að heilli plötu, sem fer inn á Spotify og hún dettur þá bara inn á eitthvað safn. Þá er um að gera að kasta fleiri litlum steinum út í heiminn,“ segir Svavar.

Auk tónleikanna í Bæjarbíói flytur Svavar fyrirlestur ásamt Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni um Reykjavíkurskáldið Tómas Guðmundsson í Hannesarholti og fer eftir það til Kanada og víða um Evrópu, þar með talið nokkrum sinnum til Þýskalands. „Ég er ekkert stór í Þýskalandi en maður getur verið lítill þar og það getur samt virkað. Ef 0,03% Þjóðverja fíla þig þá eru það samt þrjú þúsund manns. Það er alveg ótrúlega gaman og ég hef alveg nóg að gera. Þeir eru bara svo menningarsæknir þessar elskur. Þeir eru svo til í að hlusta,“ segir Svavar um tíðar tónleikaferðir sínar til Þýskalands.

Mynd: RÚV / RÚV
Undir birkitré kom út á hljómplötunni Kvöldvöku frá árinu 2009.

Lokalag Svavars Knúts og föruneytis er lagið The Hurting sem hefur gert það gott á Rás 2 en einnig á öðrum meira framandi stöðum. „Það er svo gaman hvernig lífið er alls konar. Þetta lag var tekið inn í crossfitkeppni og er núna einkennislag keppninnar, notað í auglýsingum og svo framvegis. Við erum líka að fara að spila þar í Laugardalshöll. Síðast þegar ég opnaði íþróttamót var það Evrópumótið í skák. Þvílíkt undarleg hliðarskref,“ segir Svavar um skemmtileg afdrif þessa kröftuga lags. „Það komu tveir menn að mér í Hafnarfirði um daginn, þar sem ég stóð með bumbuna mína og puttana á kafi ofan í poka með beikonsnakki, og þeir tilkynntu mér að ég ætti eitt besta workout-lag í heimi. The Hurting var ekki hugsað sem slíkt, fjallar meira um kvíða og brjálæði. Þegar neikvæðar tilfinningar koma upp og maður þarf að vinna úr. The Hurting fjallar bara um það að takast á við alla sína djöfla og hvers vegna ekki að takast á við þá í ræktinni líka,“ segir Svavar að lokum.

Mynd: RÚV / RÚV
The Hurting er af plötunni Ahoy! Side A.

Hafdís Helga Helgadóttir tók á móti Svavari Knúti og stórsveit hans í Stúdíói 12. Hljóðupptökur voru í höndum Marteins Marteinssonar og Gísla Kjarans og um myndstjórn sá Guðný Rós Þórhallsdóttir.