Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Sama þó okkur verði hent úr keppni“

Mynd með færslu
 Mynd: BBC - Twitter

„Sama þó okkur verði hent úr keppni“

20.10.2019 - 11:00
Leikmenn enska utandeildarliðsins Harigney Borough gengu af velli í bikarleik liðsins við Yeovil Town í gær eftir að hafa orðið fyrir kynþáttaníði úr stúkunni. Þjálfari liðsins segir það skipta sig litlu ef liðinu verður refsað fyrir að ganga af velli.

Er Yeovil fékk vítaspyrnu í síðari hálfleik varð Valery Pajetat, markvörður Haringey, fyrir aðkasti úr stúkunni af hálfu stuðningsmanna Yeovil. Hróp voru gerð að honum á grundvelli kynþáttar hans, hlutum kastað að honum og hrækt á hann að sögn sjónarvotta. Þá varð Coby Rowe, varnarmaður liðsins, einnig fyrir kynþáttaníði að sögn þjálfara liðsins Tom Loizou.

„Þetta var ógeðslegt.“ sagði Loizou í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC. „Það var hrækt á markvörðinn minn og flösku kastað í hann. Dómaranum tókst að róa hlutina niður en þá varð varnarmaðurinn minn Coby Rowe fyrir kynþáttaníði,“ bætir Loizou við.

Þá segir Loizou að leikmenn og starfsmenn Yeovil hafi staðið með sér og sínum leikmönnum í að ganga af velli.

„Leikmenn og þjálfari Yeovil voru frábærir. Liðið þeirra reyndi að róa stuðningsmenn sína niður, þeir reyndu sitt besta og þeir studdu okkur - þeir sögðu: ef þið gangið af velli, göngum við með ykkur,“ segir Loizou sem segist bera ábyrgð á að taka liðið af velli.

„Ég tók leikmenn mína af velli og ég vil ekki að Yeovil Town verði refsað fyrir það. Ef okkur verður hent úr keppninni og þeir fara áfram verður engin biturð af okkar hálfu,“

„Mér er sama ef okkur verður refsað og hent úr keppni,“ sagði Loizou við BBC.

Aðeins fimm dagar eru liðnir síðan þeldökkir leikmenn enska landsliðsins urðu fyrir kynþáttafordómum áhangenda búlgarska landsliðsins í leik liðanna í Búlgaríu. Sá leikur var stöðvaður tvisvar en síðan haldið áfram. Það mál vakti mikla athygli og hafa bæði landsliðsþjálfari Búlgaríu og formaður knattspyrnusambands landsins sagt af sér.

Enska knattspyrnusambandið sendi frá sér tilkynningu í gær vegna uppákomunnar. Í henni segir að hvers kyns mismunum eigi ekki að líðast og að málið sé í rannsókn hjá sambandinu.

Grasrótarsamtökin Kick it Out, sem berjast gegn rasisma í enskum fótbolta, birtu skýrslu í júlí þar sem fram kemur að tilkynningum um kynþáttaníð í enskum fótbolta hafi fjölgað um 43% á milli tímabila.

Að neðan má hlusta á ummæli Loizou, þjálfara Haringey.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Leik hætt á Englandi vegna kynþáttafordóma

Fótbolti

Kynþáttafordómar og hermannakveðjur

Fótbolti

Tilkynningum um kynþáttaníð fjölgar

Fótbolti

Kynþáttahatur í brennidepil