Sálumessa plasts og sundbolti

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Sálumessa plasts og sundbolti

15.01.2020 - 12:30

Höfundar

Fimm strandaglópar vakna á eyðieyju einhvers staðar milli raunheima og skáldskapar. Þannig hljómar söguþráður leikverksins Eyður eftir sviðslistahópinn Marmarabörn sem unnin er í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Marmarabörn skipa listamennirnir Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson og Védís Kjartansdóttir. „Við erum hópur af listafólki sem erum öll heilluð af sviðinu, töfrum þess og töfrum þessarar samkomu: áhorfendur og svið. En ekkert okkar er beinlínis leiklistarmenntað. Við komum með okkar bakgrunn inn í þessa vinnu sem er úr kóreógrafíu, myndlist, leikhúsi og tónlist,“ segir Saga. 

Eyður er önnur sýning hópsins í Þjóðleikhúsinu, en í fyrra settu þau upp verkið Moving Mountains sem tilnefnt var til Grímuverðlauna og gagnrýnendaverðlauna evrópska tímaritsins Tanz 2017.

Síðast reipi nú plast

Að sögn Sigurðar Arent mótast verkið í fjölbreyttu samstarfi. „Ferlið hjá okkur er frekar langt, hugmyndin fæddist fyrir kannski tveimur, þremur árum og síðan reynum við að hittast reglulega með nokkurra mánaða millibili. Þetta er mjög opið, við komum með þær hugmyndir sem við höfum til borðs og þær geta verið sögur, textar einhvers konar eða jafnvel hlutir og bíómyndir eða hvaðeina. Síðan fer þetta hægt og bítandi að mótast og við finnum okkur eitthvað hráefni sem verður svona hálfgerður lukkugripur. Í síðustu sýningu sem við sýndum hérna, Moving Mountains þá, var það ægilega langt reipi og núna erum við svolítið heilluð af öllu þessu plasti sem er í kringum okkur. Þetta er sálumessa plasts að einhverju leyti,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Verkið er hvorki hefðbundin dans- né leiksýning. „Við vinnum saman sem höfundar og viljum segja sögu á sviði en það er kannski ekki einn hreinn þráður í sögunni, hún er ekki blátt áfram, hún er full af útúrsnúningum og jafnvel ósannindum,“ segir Saga.

Smá fíflalæti

Að sögn Sigurðar er kómískur undirtónn í verkinu. „Það er alltaf stutt í húmorinn hjá okkur af því að okkur finnst svo gaman að skapa saman og búa eitthvað til. Við erum kannski að díla við stór þemu en við leyfum okkur að vera líka létt. Einhver sagði að listamenn ættu alltaf að fara á móti straumnum. Straumurinn í dag er frekar neikvæður að mörgu leyti, það er mikil svartsýni og annað þannig að kannski að fara á móti því hefur eitthvað gildi vonandi, að vera með smá fíflalæti og leyfa barninu að koma fram á sjónarsviðið líka.“

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið
Einnig var fjallað um verkið í Víðsjá á Rás 1.

Nánari upplýsingar um verkið má finna hér. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Það er hiti í loftinu“

Dans

Ljós og myrkur í huga áhorfanda

Leiklist

Marmarabörnin flytja fjöll

Leiklist

Þokuverksmiðja á Feneyjatvíæringnum