Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sálumessa – Gerður Kristný

Mynd: Forlagið / Forlagið

Sálumessa – Gerður Kristný

10.10.2019 - 13:22

Höfundar

„Maður veltir fyrir sér hvaða þögn umlukti þessi mál öll þessi ár. Hvernig við fórum með konur til forna eins og Steinunni á Sjöundá sem elur barn í fangelsinu og deyr í fangelsisvistinni. Þannig þessar konur áttu skilið sína sálumessu,“ segir Gerður Kristný höfundur ljóðabókarinnar Sálumessa sem er bók vikunnar á Rás 1.

Í ljóðabálkinum Sálumessu frá árinu 2018 er sungin sálumessa yfir konu. „Ég ákvað að setja mig í hlutverk haugbúa sem dvelur í haugi við hliðina á stúlku sem sviftir sig lífi,“ segir Gerður Kristný sem byggir ljóðin á raunverulegu máli konu sem beitt var kynferðislegu ofbeldi af hendi bróður síns. „Hún sá enga aðra leið út úr vanlíðan sinni en sjálfsmorð.“

Gerður Kristný hlaut dóm frá siðanefnd Blaðamannafélags Íslands árið 2003 fyrir að fyrir að birta grein eftir konuna. 15 árum síðar fann hún málinu farveg í ljóðum þegar hún dvaldi í kastala í Skotlandi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gerður Kristný gerir kynbundið ofbeldi að yrkisefni, það hefur hún gert bæði sem skáld og blaðakona. En samfélagið er breytt og umræðan um kynbundið ofbeldi er ekki það sama lengur. Í Sálumessu horfist Gerður í augu við málið á ný á forsendum þessara breytinga og veltir einnig fyrir sér tungumálinu sem slíku og hugsanlegum göllum á því þegar við tölum um stóru málin.

Það vantar orð

Ljóðin í Sálumessu eru reglulega brotin upp með litlum fróðleiksmolum um orð yfir afar sértæk fyrirbæri í hinum ýmsu tungumálum. Hliðstætt því tekur höfundur fram að það vanti orð yfir önnur og alvarlegri fyrirbæri.

Í wagiman-málinu er til orð yfir að leita í vatni með fótunum

Það vantar orð yfir tímann sem það tekur harm að hjaðna

Gerður segist hafa orðið fyrir áhrifum af bók sem hún fann í Edinburg. „Ég hnaut um bók sem heitir Lost in Translation og er eftir konu sem heitir Ella Frances Sanders. Þar birtast okkur orð sem Ella telur að séu bara til í einu tungumáli. Hún hefur ekki allskostar rétt fyrir sér. Hún nefnir norska orðið forelsket, við eigum það náttúrulega líka, ástfanginn [...] Svo teljum við okkur eiga svo mörg orð á íslensku yfir snjó. Kannski vantar okkur þá bara önnur orð í staðinn yfir allskyns tilfinningar, ótta og hræðslu ogskelfingu.“

Gestir í sunnudagsþættinum verða Elín Björk Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur og Eiríkur Gauti Kristjánsson menntaskólakennari.

Mynd: Forlagið / Forlagið