Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sálumessa eftir Mozart – Valdir þættir

Mynd: RÚV / RÚV

Sálumessa eftir Mozart – Valdir þættir

30.08.2019 - 14:00

Höfundar

Introitus, Kyrie, Dies Irae og Lacrymosa úr Sálumessu eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Einsöngvari Hallveit Rúnarsdóttir. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómeyki, Mótettukór Hallgrímskirkju og Söngsveitin Fílharmónía. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.

Árni Heimir Ingólfsson skrifar:

Sálumessan sem Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) vann að síðustu vikurnar sem hann lifði er meðal helstu meistaraverka hans og ein fullkomnasta tónsmíð sinnar gerðar. Tilurð verksins var sannarlega óvenjuleg. Greifi nokkur, Walsegg að nafni, hafði orðið fyrir þeirri ógæfu að missa konu sína unga og ákvað að panta hjá Mozart sálumessu sem yrði flutt í minningu konu sinnar – undir eigin nafni en ekki Mozarts. Allt fór það þó öðruvísi en ætlað var, því Mozart lést áður en verkið var fullgert og brátt komst upp um ráðabrugg greifans. Mozart hafði hugsað sér sálumessuna í fjórtán þáttum, en af þeim voru aðeins tveir fyrstu kaflarnir fullfrágengnir við lát hans, Introitus og Kyrie. Hér hljóma tveir vinsælir þættir til viðbótar, Dies irae og Lacrymosa.

Eins og mörg önnur síðverk Mozarts ber sálumessan þess vitni að Mozart kynnti sér í þaula tónverk meistaranna Bachs og Händels síðustu árin sem hann lifði. Í Vínarborg hafði hann kynnst háttsettum embættismanni, Gottfried van Swieten, sem átti veglegt handritasafn með tónlist barokkmeistaranna. Í sálumessunni má í þessu tilliti nefna upphafsþáttinn, þar sem Mozart vitnar bæði í útfararóð Handels (The Ways of Zion do Mourn) og meðferð Bachs á gamalkunnum sléttsöng (Magnificat). Fúgustefið í Kyrie-þættinum er líka fengið að láni úr Dettingen-lofsöng Händels, en Mozart gerir það sannarlega að sínu. Sálumessan er í heild bæði spennuþrungin og ljóðræn, og einkennist af fullkomnu samvægi tónlistar og texta.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Klassíkin okkar – tónlistarsagan þín

Klassísk tónlist

Wie lieblich sind deine Wohnungen

Klassísk tónlist

Montag og Kapúlett úr Rómeó og Júlíu

Klassísk tónlist

Nimrod úr Enigma-tilbrigðunum