Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Saltið óþægilegt fyrir ferfætlinga

26.11.2019 - 15:29
Mynd með færslu
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Wikimedia Creative Commons
Dreifing sjóvatns og salts á Akureyri í baráttu gegn svifryki hefur haft áhrif á ferfætlinga. Dýralæknir mælir með þvotti eftir göngutúra til að forðast særindi.

Loftmengun hefur ítrekað mælst yfir hættumörkum á Akureyri í haust. Bærinn hóf því að dreifa saltblönduðum sjó á götur Akureyrar til rykbindingar, eins og sagt hefur verið frá. Þessar aðgerðir virðast hafa skilað árangri því engin svifryksmengun hefur mælst.

Þeirri aðgerð fylgdi það hins vegar að götur bæjarins breyttust í drullusvað. Ástandið varð reyndar svo slæmt að bænum var líkt við mýrarboltavöll á Ísafirði. Mikillar óánægju hefur gætt meðal bæjarbúa sem boðuðu til borgarafundar um helgina.

Saltið geti valdið óþægindum

Dýraeigendur lýstu yfir áhyggjum í kjölfar aðgerðanna. Birtar hafa verið myndir af skítugum hundum og þónokkrir hafa sagst halda dýrunum inni við. Elfa Ágústsdóttir dýralæknir sagði í samtali við fréttastofu í dag að hún hefði fengið þónokkuð af hringingum frá dýraeigendum sem hefðu áhyggjur af því hvaða áhrif drullan og saltið hefði á dýrin. Hún hafi þó ekki þurft að meðhöndla dýr vegna þessa.

Elfa segir saltið geta valdið dýrunum óþægindum. Það geti valdið þurrki og særindum í loppum. Það geti grjót og sandur sem sé borinn á göturnar líka gert. Hún segir mikilvægt að þrífa dýrin um leið og heim sé komið, fái saltið og drullan að þorna í feldinum geti það valdið kláða og óþægindum. Þvottur sé reyndar alltaf mikilvægur, það sé aldrei gott fyrir dýrin að vera skítug.