Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Saltið leggst misvel í Akureyringa

20.11.2019 - 14:42
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Mikið svifryk undanfarið og mögulegar aðgerðir gegn því hafa skapað heitar umræður á Akureyri. Facebook-hópur þar sem barist er gegn saltnotkun hefur farið á flug og gerður hefur verið undirskriftarlisti þar sem lagst er gegn saltnotkun á götum.

Mælingar sýna að meira svifryk er allajafna við gatnamót Glerárgötu og Strandgötu á Akureyri en við gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar í Reykjavík.

Segja að salt spilli færð og eyðileggi bíla og skófatnað

Facebook-hópurinn Ekkert SALT á götur Akureyrar hefur farið á flug og hefur meðlimum fjölgað úr nokkrum hundruðum í 2.300 manns á örfáum dögum. Þar segir að tilgangur hópsins sé að „reyna að opna augu bæjaryfirvalda fyrir því að salt spillir færð og eyðileggur bíla og skófatnað“.

Búinn hefur verið til undirskriftarlisti þar sem notkun salts á götum Akureyrar er mótmælt.

Miklar umræður hafa skapast í hópnum, meðal annars um ágæti salts sem hálkuvarnar og margir hafa bent á að saltið fari illa með bíla. Því er jafnvel haldið fram að söltun sé aðför bæjarstjórnar Akureyrar til að rýra verðgildi bifreiða bæjarbúa. Þá eru skiptar skoðanir um notkun nagladekkja sem um 74% Akureyringa hafa notað síðustu ár.

Heilbrigðiseftirlitið lagði til saltnotkun

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands lagði nýlega til að Akureyrarbær og Vegagerðin noti eingöngu salt til hálkuvarna í vetur og að gert verði átak í að efla þrif á götum bæjarins.

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sagði þá í fréttum að notkun jarðefna við hálkuvarnir sé helsti sökudólgurinn í svifryksmengun. Fleiri ástæður séu þó fyrir svifrykinu og þar nefnir hann notkun nagladekkja. Enn fremur sagði hann að Akureyringar þyrftu að ákveða hvort þeir ætla að meta lakkið á bílum sínum meira en lungu barna í bænum.