Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Salernisskólp nýtt til uppgræðslu á Hólasandi

16.09.2019 - 10:40
Mynd: RÚV / RÚV
Svartvatn eða salernisskólp verður notað til uppgræðslu á Hólasandi. Þetta byrjaði sem fráveitumál en hefur nú þróast í stórverkefni í umhverfismálum, segir sveitarstjóri Skútustaðahrepps. Hreppurinn skiptir út núverandi lögnum fyrir tvískipt lagnakerfi og sett verða upp vatnssparandi klósett.

Mývatn og lífríki þess nýtur sérstakrar verndar í lögum og er skilgreint sem viðkvæmt. Því eru gerðar kröfur til Skútustaðahrepps og stærri fyrirtækja í grennd við vatnið um ítarlegri hreinsun á skólpi en hin hefðbundna rotþró býður upp á. Sveitarfélagið er ekki fjölmennt svo leita þurfti að hagkvæmri lausn og nú eru framkvæmdir komnar á fullt. „Þetta litla sveitarfélag hefur verið að draga þennan stóra vagn sem er svolítið fordæmisgefandi fyrir önnur sveitarfélög sem hafa viðkvæma viðtaka þegar kemur að fráveitu. Þannig að það er mikil ábyrgð sem hvílir á okkar herðum,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitastjóri Skútustaðahrepps.

Salernisskólp skilið frá öðru skólpi

Þorsteinn segir þetta hafa byrjað sem fráveituverkefni en það hafi nú undið upp á sig. Það sé nú uppgræðsluverkefni og snúist um kolefnisjöfnun, vatnssparandi aðgerðir og ýmislegt fleira sem liggi saman og myndi stórverkefni í umhverfismálum. Hagkvæmasta lausnin er sú að skilja svartvatn eða salernisskólp frá öðru skólpi. Allt salernisskólp fer því inn í lokað kerfi þar sem það fer í safntank og verður svo flutt burt. Til þess þarf lagnakerfið að vera tvískipt svo á næstu vikum verður lögnum hjá stofnunum sveitarfélagsins skipt út. Þetta kerfi hefur nú þegar verið notað á hóteli Icelandair í Mývatnssveit í næstum eitt og hálft ár og gefið góða raun. Önnur hótel á svæðinu notast við annars konar hreinsibúnað. Samkvæmt sameiginlegri umbótaáætlun hafa fyrirtæki í sveitarfélaginu fjögur ár til þess að aðlagast nýju kerfi. 

Ný klósett nota um 80 prósentum minna vatn

Svartvatnið verður svo flutt í dælubíl upp á Hólasand þar sem Landgræðslan tekur við því. Notkun vatnssparandi salerna er forsenda þess að hægt sé að aka salernisskólpi upp á Hólasand og því verður hefðbundnum klósettum skipt út fyrir vatnssparandi svokölluð vacuum salerni, svipuð og flestir kannast við í flugvélum. Þau nota um 80 prósentum minna vatn en hin hefðbundnu. Þótt þessa sé ekki krafist af íbúum nýtti sveitarfélagið tækifærið í nýrri götu, Klappahrauni. „Þetta er fyrsta gata sinnar tegundar að mér er sagt í heiminum þar sem þessi lausn er notuð í íbúðagötu. Það er að segja með einu miðlægu dælukerfi fyrir salernin,“ segir Þorsteinn. Þá er gert ráð fyrir að óreist hús í götunni geti líka tengst kerfinu.

Mynd með færslu
Vatnssparandi salerni nota um 80% minna vatn en hefðbundin salerni.

Áætlað virði svartvatnsins sem áburðar 4-5 milljónir á ári

Hann segir að upphaflegar hugmyndir hafa snúist um hreinsistöðvar og áætlaður kostnaður við þær verið um 800 milljónir króna. Þessi lausn sé hins vegar mun hagkvæmari. Ríkið leggur til 180 milljónir króna í byggingu á geymslutanki undir svartvatnið á Hólasandi. Þorsteinn segir ríkið fá þá fjárfestingu til baka á 15-20 árum. Ríkið spari sér kaup á tilbúnum, innfluttum áburði og fái svartvatn til uppgræðslu. Áætlað er að virði svartvatnsins sem áburðar sé um 4-5 milljónir króna á ári. Hann segir kostnað fyrir sveitarfélagið um 70-80 milljónir og fyrir fyrirtæki í sveitinni sé kostnaður á annað hundrað milljónir. „Þegar saman er tekið þá er þetta mjög íþyngjandi fyrir okkur öll en það eru allir sammála um það held ég í dag að þetta var alveg hárrétt skref að stíga,“ segir Þorsteinn.

Segir þvagefni mjög góð áburðarefni

Svartvatnið er geymt í geymslutankinum yfir veturinn. Í honum er það hreinsað og íblöndunarefnum bætt við til að drepa bakteríur. Þegar tekur að vora og snjóa leysir verður því dreift yfir Hólasand til uppgræðslu. Nú er verið að byggja tankinn og áætlað að byrja að dreifa svartvatni strax næsta vor. Daði Lange Friðriksson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Norðurlandi eystra segir svartvatnið góðan áburð, í því séu þvagefni sem séu mjög góð áburðarefni. Þá hafi þetta hafi mikla þýðingu fyrir Landgræðsluna því með því að nota svartvatnið minnki kolefnissporið þar sem hætt verði að nota innfluttan áburð. Með þessu sé verið að nýta það sem fyrir er á svæðinu. 

default
Stefnt er að því að geymslutankurinn verði tilbúinn fyrir veturinn.

Svartvatnið ekki verið nýtt með þessum hætti áður

Þá sé ekki talin hætta á að svartvatnið fari í grunnvatnið. Sandurinn sé náttúruleg sía og með því að dreifa þessu á vorin og ekki langt fram á haust sé komið í veg fyrir það. Þá segir Daði þessa nýtingu á svartvatni ekki eiga sér fordæmi hér á landi þótt seyra hafi verið notuð til uppgræðslu. Hann segir verkefnið heilt yfir mjög spennandi og mikla ánægju með það hjá Landgræðslunni. „Við erum mjög ánægðir með þetta og sérstaklega þar sem þetta er fordæmisgefandi og fleiri fyrirtæki og svæði koma til okkar og spyrja hvernig þeir geti nýtt þessi efni,“ segir Daði.