Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sala farmiða hjá Play tefst

30.11.2019 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Töf verður á því að flugfélagið Play hefji sölu farmiða. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á Facebook-síðu félagsins. Forsvarsmenn félagsins höfðu áður sagt að miðasala myndi hefjast fyrir lok nóvember.

Í tilkynningunni segir að hjá nýju fyrirtæki geti hlutirnir stundum tekið lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir. Sala miða tefjist þvi en áformað sé að hefja miðasöluna eins fljótt og hægt er.

Í Kastljósviðtali við Arnar Má Magnússon, forstjóra Play 11. nóvember síðastliðinn, kom fram að vinna við að fá flugrekstrarleyfi væri á lokametrunum. Þegar flugrekstarleyfi væri komið í höfn yrði opnað fyrir farmiðasölu og vonir bundnar við að jómfrúarflug félagsins yrði á þessu ári.