Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sala Arion banka á Símanum klúður

20.10.2015 - 08:18
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Bjarni Benediktsson fjármaálaráðherra segir ólíðandi að fáir útvaldir búi að sérkjörum á sölu Arion banka á hlutum í Símanum. Engin þolinmæði sé fyrir slíku í þjóðfélaginu. Málið sé klúður.

Bjarni bendir á að hann sem fjármálaráðherra hafi ekki beina aðkomu að þessu máli, heldur sé það í höndum Bankasýslu ríkisins, en ríkið á 13% hlut í bankanum. Hann hafi þó ákveðna skoðun á því. „Það er alveg augljóst og ætti að vera mönnum ljóst, að það er engin þolinmæði fyrir því í íslensku samfélagi að það fái einhverjir að sitja að sérkjörum þegar að menn eru að höndla með verðmæti. Og í þessu tilviki þá er það mjög sterk upplifun manna að það hafi fáir útvaldir fengið að búa að sérkjörum,“ segir Bjarni.

Hann segir lærdóm hrunáranna vera að gæta þurfi jafnræðis í svona málum. „Það er nú eitt af því sem við viljum taka með okkur frá þessum hrunárum, að það þurfi að gæta að jafnræði og gagnsæi og öðru slíku þegar að verið er að höndla með jafn mikil verðmæti og hér eru undir. Og ég verð að lýsa ákveðinni furðu á því að þegar að svona stór viðskipti eiga sér stað þá séu með mjög skömmu millibili hægt að finna kaupendur að sama hlutnum, eða hlut í sama félaginu, þar sem að munar jafn miklu og á við hér, þ.e.a.s. yfir 30% munur þegar að hluturinn fer í sölu. Þannig að mér finnst þetta vera ákveðið klúður þetta mál,“ segir Bjarni.