Sala á þurrmeti fimmfaldast hérlendis eftir COVID-smit

02.03.2020 - 21:53
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Forsvarsfólk matvöruverslana segja að sala á þurrmat hafi fimmfaldast síðan fyrsta COVID smitið greindist hérlendis. Sala í netverslunum hefur tvöfaldast. Handspritt er víðast hvar uppselt.

Niðursoðnar vörur, G-mjólk, morgunkorn og hrökkbrauð eru allt matvörur með langt geymsluþol og á lista Landlæknis um æskilegt birgðahald heimila í heimsfaraldri. Þessar vörur rjúka út í matvöruverslunum síðan að fyrsta COVID-19 smitið greindist á Íslandi.

„Þetta er margföldun á þessum vörum miðað við venjulega daga, alveg fimmföldun gæti ég trúað, segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss.

Líklega fólk í sóttkví sem verslar á netinu

Forsvarsfólk Krónunnar hefur fengið fyrirspurnir um hamfarakassa en það er ekki búið að ákveða hvort þau verða við því. Þá er fólk að nýta sér netverslun í auknu mæli undanfarna viku. Nettó telur að aukningin sé um 60%. Nærri 300 manns eru í sóttkví heima. „Í dag er tvöföldun á sölunni á netinu,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Nettó.

Er þetta þá fólk í sóttkví sem er að sækja í netið? „Við getum ekki greint það beint en við erum að fá auknar athugasemdir þar sem fólk er að biðja okkur um að skilja vörurnar eftir fyrir utan hjá sér,“ segir Gunnar Egill.

Þá er handspritt uppselt víðs vegar. „Við erum búin að selja 30 þúsund brúsa frá áramótum,“ segir Guðmundur.

„Við erum búin að selja jafn mikið á tveimur mánuðum og síðustu tvö ár. Við erum bara eins og allir að leita leiða til að fá auknar birgðir, það eru öll lönd í kringum okkur að reyna að birgja sig vel upp,“ segir Gunnar Egill.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi