Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Saknar fjölmiðils sem skilur Framsókn

02.07.2014 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Fylgi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum er sjaldnast í samræmi við gengi flokksins í kosningum. Þetta segir Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Hún segist sakna fjölmiðils sem skilur Framsóknarflokkinn.

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup í júní fer fylgi Framsóknarflokksins minnkandi. 12,7% kjósenda myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði til Alþingis nú. 

Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir að sér færari menn verði að útskýra þennan mismun sem ávallt sé á skoðanakönnunum og síðan gengi Framsóknarflokksins.

Hún segir að ósamræmi milli skoðanakannana og kosninga hafi lengi fylgt Framsóknarflokknum. „Frá því ég byrjaði í pólitík fyrir margt löngu hefur þetta verið þannig, maður hefur þurft að kljást við að vera dæmdur úr leik alveg fram að kosningu.“

Nú eru skuldaniðurfellingarnar komnar til framkvæmda. Áttirðu von á því að fylgið myndi aukast í kjölfarið? „Já, þær eru náttúrlega í framkvæmd að því leyti að fólk er ekki farið að sjá hvað það fær í budduna. Fólk tekur nú alltaf nokkuð mið í sínu lífi í gegnum buddu sína. Við fylgjum okkar stefnumálum eftir bara fast, sem við sögðum. Og ég er alveg sannfærð um það að við munum sjá árangur í lok kjörtímabilsins og þá munum við lyftast á ný.“ 

Sigrún segist til viðbótar við þetta vilja segja að hún „sakni fjölmiðils sem skilji Framsóknarfólk og stefnu þeirra.“ „Mér finnst alltaf vera mjög tortryggt allt sem Framsóknarmenn leggja til og tala um og snúið út úr því á alla enda og kanta. Við vitum náttúrlega að Fréttablaðið er mest fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Það væri gott fyrir okkur Framsóknarmenn að eiga okkar Fréttablað. Ég bara svona nefni þetta.“