Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sakamál, samsæri og sönn íslensk galdrafár

Mynd: https://www.youtube.com/watch?v= / https://www.youtube.com/watch?v=

Sakamál, samsæri og sönn íslensk galdrafár

08.05.2019 - 09:13

Höfundar

Sönn sakamál, brjálaðir sértrúarsöfnuðir og samsæriskenningar eru meðal viðfangsefna hlaðvarpsins Last Podcast on the Left. Þórður Ingi Jónsson tók forsvarsmenn þess tali, en þeir voru nýlega staddir á Íslandi til að viða að sér efni um galdraofsóknir.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Last Podcast on the Left er vinsælt bandarískt hlaðvarp en þar er fjallað á glettinn hátt um allt hið dökka og dimma í lífinu – svo sem hrylling, raðmorðingja, sértrúarsöfnuði og samsæriskenningar. Útvarpsmaðurinn Marcus Parks er heilinn á bak við þáttinn ásamt grínistunum Henry Zebrowski og Ben Kissel. Lestin hafði samband við Marcus Parks skömmu eftir nýlega Íslandsferð hans, þar sem hann ferðaðist um landið og fór meðal annars í Galdrasafnið á Hólmavík.

Dagskrárgerðarmennirnir í Last Podcast hafa nokkrum sinnum tekið Ísland fyrir í þáttunum, aðallega í umræðu um yfirskilvitleg fyrirbæri eins og galdra, álfa og huldufólk. Marcus segir að þá langi til að fjalla meira og ítarlegar um galdrafárið á Íslandi á sínum tíma í framtíðinni.

Marcus Parks og félagar hans, þeir Henry og Ben kalla þáttinn sakamálagrín eða „true crime comedy“ upp á ensku. „Í hverjum þætti förum við yfir eitthvert ákveðið mál í einn til tvo tíma, grínumst með það og togum og teygjum í allar áttir,“ segir Parks í samtali við Lestina. Hryllingur og sönn sakamál er eitthvað sem þeir félagar höfðu alltaf haft sérstakt dálæti á, og árið 2011 ákváðu þeir að búa til sinn eigin þátt helgaðan efninu.

„Nú, átta árum seinna, eru komnir um 360 þættir af Last Podcast. Til að byrja með vissum við ekkert hvað við vorum að gera,“ segir Parks. Þátturinn hefur batnað og breyst til mikilla muna frá því í upphafi, en nú fer fram mikil rannsóknarvinna og undirbúningur fyrir hvern þátt. Hlustendur og aðdáendur hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja en vinsældir þáttanna hafa haldist í hendur við aukinn áhuga almennings á sönnum sakamálum og dularfullum fyrirbærum.

„Sakamálasögur og áhuginn á hinu óhugnalega hefur alltaf verið til staðar,“ segir Parks, „enda voru aftökur á almannafæri afar vinsæl afþreying um margra alda skeið.“ En áhugi á sönnum sökumálum hefur þó aukist til muna á allra síðustu árum með hlaðvörpum eins og Serial og sjónvarpsþáttum á borð við Making a Murderer. Það hefur komið sér vel fyrir félagana í Last Podcast sem voru aðeins á undan bylgjunni og höfðu því mikið af tilbúnu efni á netinu þegar hún reið yfir.

Önnur bylgja sem riðið hefur yfir Bandaríkin á seinustu árum og hefur verið fjallað mikið um í Last Podcast er heimur samsæriskenninga. „Við höfðum alltaf haft gaman að lesa um samsæriskenningar. En í forsetatíð Donalds Trumps hafa samsæriskenningarnar orðið hluti af raunveruleikanum,“ segir Parks.

Parks vitnar í Bill Cooper sem fjallað hefur verið um í Last Podcast, en hann er eins konar guðfaðir samsæriskenninga í Bandaríkjunum. „Hugmyndin er að ríkisstjórnin sé í öllum tilfellum að ljúga að almenningi. Það skemmtilega við þennan heim er hversu fáránlegar kenningarnar iðullega eru. Það er hvorki hægt að sanna þær né afsanna – þær eru eins konar list,“ segir Parks.

Hondum finnst þó gamanið vera farið að kárna á allra síðustu árum. „Þökk sé auknu áhorfi almennings á YouTube, eru ruglaðar samsæriskenningar orðnar hluti af bandarískri meginstraumsmenningu. Það að menn taki þetta svona alvarlega tekur allt gamanið úr því.“ Nú séu ósannar samsæriskenningar farnar að stjórna kosningum og hafa áhrif á stefnumótun ríkisstjórna, sem geti verið stórhættulegt. „Heimurinn hefur ef til vill aldrei verið jafn friðsæll og í dag, en vegna veraldarvefsins þá sjáum við meira af óreiðunni. Við búum í kaótískum heimi og því þráir fólk að sjá skipulagið í óreiðunni. Helsti ótti samsæriskenningamannsins er sú tilhugsun að enginn stjórni neinu,“ segir Parks að lokum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Versta plata allra tíma?

Tónlist

Rísandi rappstjarna nýtur stuðnings Rihönnu

Tónlist

Tæpur drengur verður tengdur

Kvikmyndir

Birtingarmynd þeldökkra í hryllingsmyndum