
Sakaður um alvarlegt kynferðisbrot
Sagði frá eftir #metoo
Samkvæmt heimildum fréttastofu er Jón Páll sakaður um nauðgun sem gerðist í vinnuferð fyrir tæpum 10 árum síðan. Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, segir hann hafa viðurkennt fyrir sér 3. desember, eftir að #metoo-byltingin hófst, að hafa beitt konu grófu kynferðisofbeldi fyrir um áratug.
„Mér var auðvitað brugðið. Þetta var mikið áfall og það tók við ákveðinn hvirfilvindur í mínu tilfinningalífi. Ég óskaði eftir því að hann mundi tala um þetta opinskátt,” segir Þuríður.
Bað hann um að upplýsa stjórnina
Haldinn var stjórnarfundur 20. desember þar sem Þuríður hafði beðið Jón Pál um að upplýsa stjórnina um málavöxtu. Hann gerði það þó ekki að öllu leyti. „Og svo er haldinn annar fundur í gær þar sem hann kemur aftur á fund stjórnar og þar er þetta aftur rætt og ákvörðun tekin í kjölfarið. Hann segir í rauninni upp, um leið og hann segir frá þessu atviki. Og ég er að reyna að átta mig á því hvað sé best að gera í stöðunni, hvað sé rétt og hvað sé rangt. Það bara hefur tekið sinn tíma að átta sig á því.
Við fundum að það var ekki traust til hans sem starfsmanns, og þar af leiðandi var hann látinn víkja.”
Jón Páll var ráðinn í stöðu leikhússtjóra í desember 2014. Auglýst verður eftir nýjum leikhússtjóra á næstunni.
Sagði ástæðu uppsagnarinnar vera rekstrarerfiðleikar MAk
20. desember sendi Jón Páll frá sér yfirlýsingu á Facebook þar sem hann sagðist hafa ákveðið að segja upp störfum vegna erfiðs rekstrarumhverfis félagsins. Þá var samþykkt af stjórn Menningarfélags Akureyrar, sem rekur LA, að Jón Páll myndi starfa sem leikhússtjóri og leikstjóri út leikárið.
En í gær ákvað stjórn og framkvæmdastjóri Menningarfélagsins að víkja Jóni Páli frá störfum án tafar þar sem hann nyti ekki lengur trausts.
Þegar #metoo-umræðan var í hámæli hafi hann viðurkennt að hafa beitt konu kynferðisofbeldi.
Þolandinn setti sig í samband við Jón Pál
Jón Páll sagði í hádeginu, í yfirlýsingu til fréttastofu, að uppsögnin tengdist atburði, eins og hann orðar það, sem átti sér stað fyrir áratug og ekki innan Leikfélags Akureyrar. Hann sagði þolandann í málinu hafa haft samband við sig fyrir fimm árum vegna málsins. Hann sagði einnig í yfirlýsingunni að hann hafði sagt framkvæmdastjóra MAk frá málinu og stöðunni þegar #metoo byltingin fór af stað.