Sakaði Boris Johnson um rasisma á Brit-hátíðinni

epa08226928 British rapper Dave arrives for the Brit Awards 2020 at the O2 Arena in London, Britain 18 February 2020.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Sakaði Boris Johnson um rasisma á Brit-hátíðinni

19.02.2020 - 12:05

Höfundar

Breski tónlistarmaðurinn Dave vakti mikla athygli fyrir atriði sitt á Brit-verðlaunahátíðinni í London í gær. Þar flutti hann lagið Black og hafði þá bætt við nýju erindi þar sem hann kallaði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, rasista auk þess sem hann gagnrýndi stjórnvöld fyrir framkomu í garð svartra og innflytjenda.

Dave hefur átt góðu gengi að fagna undanfarið og plata hans Psychodrama hlaut verðlaun í flokknum plata ársins á verðlaunaafhendingunni í gær. Hún færði honum einnig Mercury-verðlaunin á síðasta ári. Flutningur hans á laginu Black var þó hápunktur Brit-hátíðarinnar þar sem hann lét stjórnvöld í Bretlandi fá það óþvegið.

Innanríkisráðherra Bretlands, Priti Patel, tók upp hanskann fyrir Boris Johnson eftir flutning Daves og gaf í skyn að rapparinn hefði aldrei hitt forsætisráðherrann. „Ég veit ekki hversu mikið Dave veit um forsætisráðherrann, eða hvort hann hefur einhvern tímann hitt hann eða þekkir hann.”

„Ég vinn með forsætisráðherranum, ég þekki Boris Johnson mjög vel. Það eru engar líkur á því að hann sé rasisti, mér finnst þetta vera algjörlega óviðeigandi ummæli og röng staðhæfing gagnvart forsætisráðherra okkar,” bætti Patel við. 

Dave var þó ekki sá eini sem vakti athygli fyrir atriði sitt á hátíðinni. Stórstjarnan Billie Eilish steig einnig á svið ásamt bróður sínum Finneas, gítargoðsögninni Johnny Marr og tónskáldinu Hans Zimmer. Þau frumfluttu ar nýja James Bond-lagið, No Time to Die, og hlutu mikið lof fyrir. Billie Eilish hlaut einnig verðlaun sem besta alþjóðlega söngkonan. 

Aðrir helstu sigurvegarar Brit-verðlaunanna eru Lewis Capaldi sem hlaut verðlaun sem besti nýliðinn og lag hans, Someone You Loved, var valið lag ársins. Besti breski söngvarinn var Stormzy og Mabel var valin besta breska söngkonan. Þá hlaut hljómsveitin Foals verðlaun sem besta hljómsveitin.

Sjá má lista yfir alla sigurvegara Brit-verðlaunahátíðarinnar á vef breska ríkisútvarpsins BBC.