Fyrirtækið Stay Apartments býður ferðamönnum íbúðir til útleigu á nokkrum stöðum í Reykjavík og eru þær flestar í Einholti. Fyrirtækið hefur haft starfsfólk í þrifum. Það hefur kvartað undan því að hafa ekki starfsmannaaðstöðu. „Það er engin aðstaða. Það var ekki greiður aðgangur að salerni og ekki kaffiaðstaða og ekki neitt. Það var svona lítil kompa sem við geymdum skúringarföturnar og klósettpappír og annað slíkt og við gátum hengt upp yfirhafnir,“ segir Ragnhildur Jóhannsdóttir, sem er ein þeirra starfsmanna Stay Apartments, sem kvörtuðu.
Halldór Gerhard Meyer, eigandi Stay Apartments, segir að hann hafi reynt að bregðast við kvörtunum. „Við leituðum lausna þar með var ég að skoða húsnæði sem var hérna rétt hjá sem hefði svo sem hentað en ég hafði áhyggjur af því að það yrði sama og ekkert nýtt,“ segir Halldór.