Sagðist muna að hafa gert „eitthvað ljótt“

05.11.2019 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Réttarmeinafræðingur telur að árás tvítugs karlmanns á kærustu sína fyrir hálfum mánuði hafi verið mjög gróf og harkaleg og að hún kunni að hafa verið lífshættu meðan á henni stóð. Stúlkan er enn barn að aldri. Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar sem birtist í dag. Maðurinn er grunaður um að hafa áður beitt hana ofbeldi.

Maðurinn var handtekinn á vettvangi og í framhaldinu úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald.

Lögreglan fór síðan fram á að gæsluvarðhaldið yrði framlengt en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu þar sem hann taldi að læknisfræðileg gögn styddu ekki að maðurinn hefði ætlað að taka líf stúlkunnar. Áverkar hennar hefðu ekki verið lífshættulegir né hefðu hún farið í lífshættulegt ástand, eins og það er orðað. 

Lögreglan kærði ákvörðun héraðsdóms til Landsréttar og horfði dómurinn til skýrslu réttarmeinafræðings um að stúlkan kynni að hafa verið lífshættu á meðan árásinni stóð. Ríkir almannahagsmunir stæðu til þess að menn sem grunaðir væru um svo alvarleg ofbeldisbrot gengju ekki lausir.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglunni hafi borist tilkynning frá vegfarenda um blóðuga manneskju skammt frá Kolaportinu.  Vegfarandinn sá árásarmanninn halda á stúlkunni þar sem hann gekk yfir Geirsgötu frá hafnarsvæðinu.

Þegar lögreglan kom á staðinn var árásarmaðurinn enn á vettvangi, skólaus, og sat yfir stúlkunni sem var í miklu uppnámi og mjög blóðug í framan. Hann neitaði að tjá sig um hvað hefði gerst í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu, annað en að þetta hefðu verið „dramatísk sambandsslit“ og hann hafi ítrekað haft uppi ummælin „Sjáðu hvað ég hef gert“. 

Að morgni næsta dags bar hann fyrir sig minnisleysi en taldi sig þó muna að hann hefði gert „eitthvað ljótt.“ Í næstu skýrslutöku tók hann fram að hann væri hræddur um að hafa beitt stúlkuna ofbeldi. 

Stúlkan ræddi við hjúkrunarfræðing á Landspítalanum og sagðist hafa verið með manninum umrædda nótt. Þau hefðu farið á skemmtistað en hann hefði orðið afbrýðisamur.  Þau hefðu gengið að hafnarsvæðinu þar sem hann hefði hent henni í götuna, sparkað í hana og tekið hana hálstaki. 

Í niðurstöðu skýrslu réttarmeinafræðings kemur fram að maðurinn hafi veitt henni mörg högg,  líklega einhver spörk og að mögulega hafi hann stappað á andlitinu. Árásin hafi beinst að höfði og andliti auk þess sem tekið hafi verið um hálsinn og þrengt að.  Lögreglustjórinn taldi því að maðurinn hefði veist að stúlkunni með ofsafengnum hætti og þó að áverkarnir væru alvarlegir væri það hending ein að ekki fór verr.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi