Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sagði þriðja orkupakkann vera stórhættulegan

30.03.2019 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að rök fyrir því að samþykkja þriðja orkupakkann séu ekki fyrir hendi. Hann sé stórhættulegur og liður „í tannhjóli í gangverki kerfisins.“ Hann sagði það stefnu flokksins að fólk ætti að ráða eigin örlögum en ekki andlitslausar stofnanir á Íslandi eða í útlöndum. Flokkurinn hefði áður tekist á við ofurefli og myndi gera það áfram. „Eitt er víst, að við Miðflokksmenn gefumst aldrei upp.“

Þetta kom fram í ræðu Sigmundar Davíðs á flokksráðsfundi Miðflokksins í dag þar sem þriðji orkupakkinn og umræðan um hann var í brennidepli.  

Sigmundur sagði að átökin um þetta minntu hann á fyrri átök, meðal annars um Icesave og það veitti ekkert síður af andspyrnuhreyfingum nú en þá. Hann sagði þetta snúast um tilraun Evrópusambandsins til að afla sér aukinnar orku og koma á sameiginlegum markaði með þá orku. „En um leið að ESB fái full yfirráð um orkumálin í álfunni.“ Markmiðið væri með öðrum orðum að Evrópusambandið hefði stjórn á orkusölu og framleiðslu í Evrópu. Allt yrði sett á markað og menn mættu ekki einu sinni ákveða verðið. „Þetta þýðir að það yrði bannað fyrir okkur Íslendinga að laða hingað æskilega fjárfestingu með því samkeppnisforskoti sem við höfum með ódýrri orku.“

Sigmundur sagði raunverulegan möguleika á því að Ísland gæti orðið orkuver fyrir Evrópu. Erlend fyrirtæki gætu gert þá kröfu að Landsvirkjun yrði brotin og gætu gert kröfu um að tengjast Íslandi með því að leiða hingað sæstreng. „Menn ættu ekki að hafa ólíkar skoðanir á því að tengja Ísland með sæstreng á forsendum Evrópusambandsins.“

Sigmundur sagði að þriðji orkupakkinn væri fullveldismál sem gengi út á yfirráð erlendrar stofnunar. „Óvissan gagnvart stjórnarskrá er ótvíræð en samt er haldið áfram.“ Hann sagði þetta snúast um heildarhagsmuni Evrópu en ekki hagsmuni hvers ríkis fyrir sig. „Við höfum svo oft séð hversu miklu máli það skiptir að standa vörð um fullveldisréttinn.“

Formaðurinn sagði það eitt af grundvallaráhyggjuefnum stjórnmála að stjórnmálamenn væru hættir að stjórna, því kerfið réði för. Stjórnmálamenn settu upp leiksýningu og veittust að andstæðingum sínum persónulega í stað þess að rökræða við þá. „Og á meðan leiksýningunni stendur heldur kerfið áfram að stjórna.“ Miðflokkurinn myndi standa gegn þessu og ætlaði sér að berjast fyrir lausnum og virða lýðræðið. „Það þýðir að okkur verður sótt, af hagsmunaaðilum og af pólitískum andstæðingum.“

Sigmundur sagði flokkinn ekki ætla að þóknast öllum heldur væru fulltrúar flokksins kosnir til að framfylgja ákveðinni stefnu. „Almenningur á að ráða eigin örlögum en ekki andlitslausar stofnanir á Íslandi eða í útlöndum.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV