Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sagði hugmynd um skaðabótamál byggða á sandi

19.08.2019 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir að hugmyndir um skaðabótaskyldu Íslands, ef ekki verður lagður sæstrengur til landsins, vera byggðar á sandi. Sérfræðingur í Evrópurétti segir að fyrirvarar Íslands verði að vera alveg skýrir, því meiri afsláttur, því verra.

Það gekk á ýmsu á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um þriðja orkupakkann. Til snarpra orðaskipta kom milli fyrrverandi samherja í pólitíkinni þegar Orkan okkar kom á fund nefndarinnar.  Þá gekk erfiðlega að finna takkann til að draga gluggatjöldin fyrir þegar einn af gestum nefndarinnar bauð upp á Power Point-sýningu.  Annar gestur spurði hvort hann þyrfti nokkuð að koma fyrir nefndina aftur. „Ég bind vonir við að svo verði ekki,“ sagði formaður nefndarinnar.

Sæstrengur eða ekki sæstrengur?

Umræðan í morgun snerist að miklu leyti um það hvort eitthvað í þriðja orkupakkanum legði þær skyldur á íslensk stjórnvöld að samþykkja lagningu sæstrengs eins og haldið hefur verið fram. „Þriðji orkupakkinn skuldbindur Ísland til að þvælast ekki fyrir ef einhver vill leggja sæstreng,“ sagði Frosti Sigurjónsson, einn af forsvarsmönnum Orkunnar okkar á fundinum í morgun. Ef Ísland legðist gegn lagningu sæstrengs gæti það mögulega bakað íslenska ríkinu skaðabótaskyldu og slíkt mál snerist um svimandi háar upphæðir.

Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskóla Reykjavíkur, var á allt öðru máli.  Hann sagði hafréttarsamninga koma í veg fyrir slíkt skaðabótamál,  enginn væri að fara að koma hingað og tengja sig við raforkukerfið. Þá hefði   enginn lýst því nákvæmlega hvernig ætti að byggja upp slíkt dómsmál því það væri enginn réttur til að leggja hérna sæstreng. „Þessi hugmynd um skaðabótaskyldu er byggð á sandi því réttur til að leggja sæstreng er ekki til.“

Ísland ræður

Bjarni sagði það alveg skýrt að það væri íslenska ríkið sem réði því hvort einhver legði sæstreng inn fyrir landhelgi Íslands. „Ef einhver ætlar að leggja sæstreng í trássi við vilja íslenskra stjórnvalda þá er það hreinlega fullveldisbrot sem er hægt að bregðast við með valdi,“ sagði Bjarni Már í samtali við fréttastofu eftir fundinn.

Á fund nefndarinnar komu einnig Friðrik Árni Friðriksson og Stefán Már Stefánsson sem unnu álitsgerð fyrir utanríkisráðuneytið um innleiðingu orkupakka þrjú.  „Maður fær stjörnur í augun við að hitta ykkur í eigin persónu,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata,  í gríni en álitsgerð Stefáns og Friðriks vakti mikla athygli og umtal. 

Friðrik Árni var spurður út í ummæli Bjarna Más um hvort hafréttarsáttmálinn kæmi Íslandi til góða þegar kæmi að sæstrengsmáli. Friðrik sagðist ekki geta véfengt þessi orð enda væri Bjarni doktor á sviði hafréttar.

Fyrirvararnir verða að vera skýrir

Stefán sagði að til þess að koma í veg fyrir samningsbrotamál yrðu fyrirvararnir í þingsályktunartillögunni að vera alveg skýrir. Það yrði að vera alveg klárt á hvaða forsendum tillagan væri samþykkt og best væri ef engin afsláttur væri gefin. „Því meiri afsláttur, því verra“ sagði Stefán. Mikilvægt væri að pakki ríkisstjórnarinnar væri klæddur í nógu þéttan búning og að allir fyrirvarar væru þarna inni. 

Síðasti gesturinn var Birgir Tjörvi Pétursson sem vann álitsgerð fyrir atvinnuvegaráðuneytið um þriðja orkupakkann.  „Mér hefur þótt áberandi hvað margir hafa fjallað um málið í sumar án þess að gera sér grein fyrir því hvaða lög gilda í landinu eða skauta fram hjá því,“ sagði Birgir þegar hann ávarpaði nefndina. 

Hann sagði engar efnisreglur í orkupakkanum sem hægt væri að nýta í hugsanlegri kröfugerð um að fá að leggja sæstreng hingað til lands.  Það væri nánast fjarstæðukennd og mjög langsótt hugmynd að höfða samningsbrotamál.   Þá taldi hann að ekki væri hægt að bera saman kjötmálið og orkupakkann , það væri svona svipað og að segja að Ísland hefði átt að byggja upp hafnarmannvirki til að geta flutt inn ófrosið kjöt.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV