Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sagði árásarmann ástfanginn af kærustu hans

19.07.2019 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landsréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Austurlands yfir karlmanni sem er grunaður um að hafa stungið annan mann í íbúðarhúsi í Neskaupstað um miðjan þennan mánuð. Maðurinn sem var stunginn var í lífshættu eftir árásina en hann greindi lögreglumönnum frá því að árásarmaðurinn væri ástfanginn af kærustunni hans og hefði margoft hótað að stinga hana, drepa hana og skera hana á háls.

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Austurlands að nágranni mannsins sem var stunginn hafi hringt á lögreglu og greint frá því að maður hefði verið stunginn með hnífi og lægi alblóðugur fyrir utan dyrnar hjá honum.

Nágranninn greindi lögreglu svo frá því að þegar hann hefði verið að fara að sofa hefði hann heyrt mikil læti frá útidyrahurðinni og barið þar mjög harklega. Hann hefði farið niður og séð manninn liggja alblóðugan í útidyrahurðinni. Þegar hann hefði opnað hurðina hefði maðurinn hrunið inn alblóðugur. Hann hefði stuggað honum út og lokað samstundist af ótta við að árásarmaðurinn myndi ryðjast inn til þar sem fjölskylda hans var en síðan hringt á lögreglu.

Hann greindi jafnframt frá því að hann hefði séð árásarmanninn fyrir utan hjá sér, greinilega að leita að hinum manninum sem lá þá í felum, mikið slasaður, aftan við bíl á bílaplani fyrir utan.

Maðurinn sem var stunginn var með skerta meðvitund þegar lögreglan kom á staðinn. Honum tókst þó að greina frá því hver hefði stungið hann og sagði lögreglumönnum frá því að árásarmaðurinn væri ástfanginn af kærustunni hans og hefði margoft hótað að stinga hana, drepa hana og skera hana á háls. 

Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi verið með stungusár framan á hálsi nærri stórum slagæðum, bláæðum og barka.  Við rannsókn hafi komið í ljós að hann hefði misst umtalsvert blóð og verið í „yfirvofandi lífshættu.“ Hann var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem gengst undir nokkrar aðgerðir.

Árásarmaðurinn hefur sagt í skýrslutökum hjá lögreglu að hann muni eftir sér að reykja við heimili sitt. Síðan bresti minni hans þar til hann muni eftir sér „gangandi úti, blóðugur á höndum með hníf í þeim báðum.“ Hann veitti enga mótspyrnu þegar hann var handtekinn.