Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Safnar bílnúmerum sem aðrir missa

10.01.2015 - 21:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Bílstjóri í Mývatnssveit hefur hirt nærri 100 bílnúmeraplötur upp úr ám og lækjum á hálendinu. Hann segir að númerin detti af bílunum fyrir glannaskap bílstjóranna þegar þeir bruna yfir óbrúuð vatnsföll.

„Einhverntíma töldum við nú áttatíu, en það hefur nú eitthvað bæst við það. Það bætist alltaf eitthvað við á hverju ári,“ segir Gísli Rafn Jónsson, bílstjóri í Mývatnssveit, um safn sitt. Forstofan hjá Gísla Rafni er meira og minna klædd innan með bílnúmeraplötum. Hann hefur keyrt um hálendið árum saman og í þessum ferðum horft eftir og hirt upp plöturnar. Í langflestum tilfellum finnur hann númerin í óbrúuðum ám og hann segir glannaskap valda því að þau detta af. „Svo er það sem skeður að jepparnir koma að ánni og keyra allt of hratt yfir. Þá fer vatnið undir bílinn, kemur svo fram úr stuðaranum og kippir númeraplötunni fram úr og hún dettur í ána.“

Númerin eru úr öllum áttum og frá fjölda landa. „Mikið númer sem eru frá Þýskalandi, þú sérð frá hvaða borg þau eru, það er mjög skemmtilegt. Það eru hollensk númer og það eru frönsk og frá Lúxemborg og Austurrríki. Þannig að maður er farinn að velja aðeins hvað maður setur upp á vegg af því að plássið er líka farið að minnka svolítið,“ segir Gísli.

En svo er það spurningin hver á bílnúmerin. Gísli óttast reyndar ekki að bíleigendur banki upp á og heimti sín númer. „Þetta er eins og ég segi, ég er að hirða númerin upp úr ánum uppi á hálendinu beygluð og krambúleruð og dunda svo við á haustdögum, þegar maður er hættur að keyra til fjalla, að rétta þetta og setja þetta upp á vegg.“