Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Safna íslenskum röddum

16.10.2019 - 23:20
Mynd: Rúv / Rúv
Í dag hófst söfnun íslenskra raddsýna á vefnum Samrómur, en söfnunin er liður í því að gera kleift að tala íslensku við tölvur og tæki. Forseti Íslands sagði í erindi sínu að nú, með íslenskum talgervlum, sé í raun verið að bjarga íslenskri tungu í annað sinn. Fyrst hafi henni verið bjargað á miðöldum þegar ákveðið var að þýða Biblíuna yfir á íslensku.

Í dag fór fram málþingið Er íslenskan góður „bisness"? þar sem fjöldi fyrirlesara flutti áhugaverð erindi um þróun máltækni. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, var fyrst til að gefa sína rödd til verkefnisins. Hún sagði að Íslendingar þyrftu að vera stöðugt á varðbergi. 

„Það eru til dæmis tvö orð sem eru nánast að hverfa úr íslensku en það eru orðin augnablik og andartak, nú segja allir móment í staðinn fyrir þessi fallegu orð. Móment er orð sem er tekið að utan meðan að við skiljum gagnsæið í andartakinu og augnablikinu,“ sagði Vigdís. 

Bergur Ebbi Benediktsson rithöfundur sagði að það skipti mestu máli að safna nógu mikið af gögnum. Það er, nógu mikið af málsýnum og raddsýnum, bæði texta og rödd. „Núna er kominn vettvangur þar sem hver og einn getur bara tekið upp símann sinn eða farið á vefsvæðið á tölvu og tekið þátt í þessu verkefni.“

„Núna stöndum við bara saman. Gefum málsýni og komum íslenskunni inn í græjurnar, inn í hinn stafræna heim og þá er henni borgið!,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.