Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Safna fé í átak gegn sjálfsvígum

30.06.2015 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Tólf manns hlupu af stað frá húsakynnum Rauða krossins í Reykjavík í morgun og ætla að hlaupa hringinn í kringum landið, með viðkomu í Vestmannaeyjum, á fimm sólarhringum. Markmiðið er að safna fé til átaks gegn sjálfsvígum.

Linda Svanbergsdóttir er einn hlauparanna tólf. „Við erum að hlaupa til að vekja máls á sjálfsvígum ungra karla á aldrinum 18-25 ára. Í dag eru sjálfsvíg orðin helsta dánarorsök karla á þessum aldri sem er náttúrulega bara skelfilegt. Við erum að hlaupa til að safna fjármagni til forvarnarverkefnis þar sem á að gera forvarnarmyndband um sjálfsvíg,“ segir Linda. Það verður svo sýnt í skólum og drengir og ungir menn þannig hvattir til að tala um vanlíðan sína. Átakið nefnist útmeða og hægt er að fylgjast með hlaupurunum á Facebook.

Pétur Smári Sigurgeirsson segir að stefnt sé að því að hlaupa hringinn á fimm sólarhringum. „Við hlaupum þetta sem sagt á nóttunni líka, viðstöðulaust. Það er alltaf einn úti að hlaupa í einu. Við komum til með að keyra þetta soldið hratt. Stefnan er að vera á 12 km hraða, svona fimm mínútur með hvern kílómetra sem við komum til með að hlaupa,“ segir Pétur.

Hópurinn lagði af stað klukkan rúmlega níu í morgun. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV