Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Safn, frekar en selja Perluna

04.02.2012 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Misráðið er að selja Perluna, sem hefur táknrænt gildi fyrir Reykjavík og tengist náttúru Íslands. Betra væri að koma Náttúruminjasafninu þar fyrir. Þetta segir. Hjörleifur Stefánsson arkitekt. Hann og Þórunn Sigríður Þráinsdóttir sýningahönnuður vilja koma Náttúruminjasafninu fyrir í Perlunni.

Perlan var auglýst til sölu í september. Orkuveita Reykjavíkur skrifaði undir viljayfirlýsingu í desember um sölu á henni við þá sem áttu hæsta tilboðið. Samkvæmt tilboðinu stendur til að byggja þar hótel og baðstað og hafa tilboðsgjafar frest til loka mars til að kanna  hvort af því geti orðið. Hjörleifur og Þórunn skrifuðu grein í Fréttablaðið í dag þar sem þau leggja til að hætt verði við að selja Perluna. Hjörleifur segir að Perlan sé stórmerkileg bygging en hana hafi skort hagnýtt hlutverk.  

„Mér finnst svo misráðið að hús af þessari gerð sé selt. Perlan hefur gríðarlega mikið táknrænt gildi fyrir Reykajvík og þetta er mjög fjölsóttur ferðamannastaður. Hún tengist í raun og veru þessari sérstöku náttúru Íslands sem Reykjavík á eiginlega allt undir. Þetta er eiginlega tákn fyrir þessa einu höfuðborg heimsins, sem hituð er með jarðhita og þar með nátengd náttúru íslands.“

Hjörleifur segir að þrátt fyrir alla peningana, sem hafi verið til í samfélaginu, hafi Íslendingar vanrækt að koma sér upp almennilegu náttúrugripasafni.   Náttúruminjasafn Íslands sé á algörum hrakhólum og hann vildi gjarna að okkur bæri gæfu til að hegða okkur skynsamlega og koma safninu fyrir í Perlunni.