Sævar Helgi kveður niður mýtur um COVID-19

18.03.2020 - 08:09
Sævar Helgi Bragason - Mynd: RÚV / RÚV
Eftir að fréttir af COVID-19 faraldrinum fóru að birtast í fjölmiðlum fór einnig að bera á alls kyns ráðum og brögðum til að verjast smiti eða koma í veg fyrir alvarlegar sýkingar. Sævar Helgi Bragason ræddi við umsjónarfólk Morgunþáttar Rásar 1 og 2 og fór yfir helstu mýtur um hvað skuli gera til að forðast smit.

Sævar Helgi fór yfir nokkrar mýtur sem hann hefur séð á samfélagsmiðlum að undanförnu og nefndi hann meðal annars mynd sem hefur farið víða en á henni kemur fram að kórónaveiran haldist í hálsinum í fjóra daga áður en hún valdi hósta og særindum í hálsi. Samkvæmt myndinni er hægt að drepa veiruna með því að skola hálsinn með volgu saltvatni og edik og láta gutla í hálsinum. Sævar segir að þetta sé af og frá. 

„Þetta virkar ekki nokkurn skapaðan hlut til að eyða vírusnum, í besta falli liður manni ögn betur í hálsinum. En maður drepur eða eyðir vírusnum heldur betur ekki,“ segir hann.

Sævar nefndi einnig annað sem hefur farið víða, að mælt sé með að drekka vatn á 15 mínútna fresti allan daginn. Vatnsdrykkjan geti skolað veirunni úr munninum. Þetta er þó heldur ekki rétt. „Hljómar fáranlega að hægt sé að drekka vatn til að skola vírus niður í maga og drepa hann þannig. Vatn kemur því miður ekki í veg fyrir að kórónavírusinn dreifist í lungun,“ segir Sævar Helgi. 

Þá vilja einnig margir meina að með því að borða hvítlauk sé hægt að koma í veg fyrir smit. Sævar nefnir að því miður sé þetta ekki heldur rétt. „Vildi óska þess að það væri rétt því hvítlaukur er svo fáranlega góður. En því miður er það ekki svo. Akkúrat ekkert sem bendir til þess að það að borða hvítlauk verji fólk fyrir að fá vírus.“

Sævar Helgi segir að oft meini fólk vel með því að dreifa þessum ráðum en geri oft meiri skaða en gagn, sérstaklega þegar að ráðin geta hreinlega reynst hættuleg, eins og að drekka silfurlausn. En þekktur bandarískur sjónvarpspredikari mælti með silfurlausn og sagði hana geta hjálpað ónæmiskerfinu og læknað ýmsa heilsukvilla. „Það er enginn fótur fyrir því, í fyrsta lagi hefur málmur ekkert sérstakt hlutverk í mannslíkamanum, en þar fyrir utan gæti það að borða eða innbyrða silfur valdið aukakvillum eins og nýrnaskemmdum.“

Annar galli við að dreifa mýtum er að þær skapa falskt öryggi og fólk ætti ekki að fara eftir öllum ráðum sem það sér. Sævar nefnir sem dæmi að hann heimsótti grunnskóla á dögunum þar sem börnin lögðu meiri áherslu á spritt en handþvott. Sævar segir gott að hafa nokkur hollráð í huga, til dæmis hvort upplýsingarnar komi frá traustum aðilum eins og fréttastofum eða stofnunum og eins er gott ráð að ef eitthvað er of gott til að vera satt, er það líklegast ekki satt. 

sigmarg's picture
Sigmar Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
thorunneb's picture
Þórunn Elísabet Bogadóttir
dagskrárgerðarmaður
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi