Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Særðist í loftárás á Seyðisfjörð fyrir 75 árum

05.09.2017 - 09:26
Í dag eru 75 ár liðin frá því að þýsk flugvél varpaði sprengjum á Seyðisfjörð en fjórir ungir drengir urðu fyrir árásinni. Einn þeirra segist engan kalla bera til flugmannsins en lengi á eftir varð hann heltekinn af ótta sæi hann flugvél á lofti.

„Þá verður allt svart“

Á Seyðisfirði hafði varnarlið Breta og síðar Bandaríkjamanna bækistöð í seinni heimsstyrjöldinni. Fjörðurinn var skipalægi fjölmargra her- og kaupskipa á leið til Rússlands með hergögn. Dagurinn 5. september árið 1942 líður Aðalbergi Þórarinssyni seint úr minni. Hann var þá sjö ára drengur á Seyðisfirði að leik í gömlum árabát í fjörunni ásamt þremur öðrum drengjum. „Bretarnir eru að fara og Ameríkanarnir að koma og það er mikið af skipum þarna á firðinum. Við tökum eftir því að það kemur flugvél fljúgandi hátt yfir fjörðinn og síðan dembir hún sér niður og kastar sprengju sem lendir í sjónum. Síðan kemur hún nær og þá verður allt svart,“ segir Aðalbergur.

Munnurinn fylltist af sandi og möl

Seinni sprengjan lenti skammt frá drengjunum. Þeir komust allir lífs af en einn missti fótinn, annar fékk höfuðhögg og Aðalbergur fékk sprengjubrot í vinstra lærið. Hann komst að húsi sem kallast Björgvin og stendur nú á öðrum stað í þorpinu. Allar rúður í húsinu brotnuðu í sprengingunni en þar fékk Aðalbergur hjálp. „Ég var nú svo stressaður að ég var með fullan munninn af sandi og möl og það var engin leið að ná því út úr mér því en svo náðist það nú fyrir rest. Örið er til staðar og verður alltaf en það er náttúrlega ekki mikið orðið í dag. En báturinn var ljótur og mikill og ljótur gígur sem myndaðist eftir sprengjuna,“ segir Aðalbergur.

Ber engan kala til flugmannsins

Hann býr nú í Keflavík og telur ólíklegt að flugmaðurinn hafi ætlað að vinna þeim mein, árásin hafi beinst að skipi á firðinum en sprengjurnar geigað. „Það er enginn kali gagnvart þessum manni sem að var þarna með þessa flugvél. Þetta voru menn sem voru kallaðir í stríðið og voru að berjast.“

Óttaðist allar flugvélar

Eftir þetta glímdi hann hins vegar við mikinn ótta enda áttu Þjóðverjar eftir að gera fleiri árásir og grönduðu olíuskipinu El Grillo í firðinum 10. febrúar 1944. „Mér leið ekki nógu vel og ég var mjög hræddur við flugvélar. Ég fer í sveit sumarið eftir og þá varð ég eins og ég vissi ekki hvað ég ætti af mér að gera þegar sá einhverjar flugvélar á sveimi yfir því að óttinn var svo djúpstæður. En svo lagaðist þetta með árunum og allt verður gott fyrir rest,“ segir Aðalbergur Þórarinsson. 

Myndin með fréttinni er úr bókinni Fremsta víglína eftir Friðþór Eydal en hún segir frá hernaðarumsvifum Breta og Bandaríkjamanna á Austfjörðum í síðari heimsstyrjöldinni. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV