
Sænskar konur hafa fengið nóg
Tugþúsundir kvenna segja frá ofbeldi
Hundruð söngkvenna höfðu sömu að segja af ofbeldi og áreitni. 1.300 konur sem starfa í stjórnmálum birtu yfirlýsingu þar sem þær fordæmdu kynferðislega áreitni. Þúsundir, jafnvel tugþúsundir hafa notað myllumerkið „metoo" á samfélagsmiðlum og lýst reynslu sinni. Hópar lögfræðinga og sálfræðinga hafa gengið fram fyrir skjöldu á síðustu dögum og sagt frá brotum gegn sér og skjólstæðingum sínum. 2400 háskólakonur skýrðu frá kynferðisbrotum í Svenska Dagbladet.
Meðal þeirra sem lýst hafa áreitni er fjöldi landsþekktra kvenna. Margot Wallström, utanríkisráðherra, sagði frá því að káfað hefði verið á læri hennar í kvöldverði á utanríkisráðherrafundi Evrópusambandsins. Dagblaðið Expressen segir að þetta staðfesti að kynferðislega áreitni sé að finna í öllum stéttum þjóðfélagsins, einnig meðal æðstu stjórnmálaleiðtoga. Náinn ráðgjafi Daníels prins, eiginmanns Viktoríu krónprinsessu, er sakaður um áreitni segir Aftonbladet.
Ofbeldisfólk hrekst úr starfi
Vinsælir dagskrárgerðarmenn í útvarpi og sjónvarpi, stjórnmálamenn og þekktir menn úr þjóðlífinu hafa hrakist úr störfum sínum vegna ásakana um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni. Í þessum hópi er ein kona sem var þáttastjórnandi hjá SR, sænska ríkisútvarpinu. Hitt eru karlmenn. Martin Timell, vinsæll þáttastjórnandi í TV4 sjónvarpinu, var rekinn. Eftir að mál hans komust í hámæli hefur kona kært hann fyrir nauðgun fyrir níu árum. Lögregla hefur enn ekki yfirheyrt hann.
Kynferðisofbeldi í heimi stjórnmálanna
Tvær stjórnmálakonur stofnuðu Facebook-hóp um kynferðisofbeldi í sænskum stjórnmálum og aðeins tveimur dögum síðar höfðu þeim borist yfir 250 frásagnir af kynferðisbrotum. Þingmenn og ráðherrar eru í hópi þeirra sem eru sakaðir um allt frá óviðeigandi athugasemdum og snertingum upp í gróft þukl, þvingaða kossa og nauðgun. Margar frásagnir eru af því að eldri stjórnmálamenn brjóti gegn ungum stjórnmálakonum. Nú fyrir helgi svipti Vinstri flokkurinn Lars Ohly, fyrrveranda leiðtoga flokksins, öllum ábyrgðarstörfum vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Hann má ekki lengur sækja fundi flokksins.
Yfirlýsing kvenna í þjóðkirkjunni
Nærri fjórtán hundruð konur innan sænsku kirkjunnar, bæði prestar og leikmenn, gáfu út yfirlýsingu fyrir helgi. Þær kváðust ýmist hafa verið beittar ofbeldi eða áreitni, vita af slíku og telja nauðsynlegt að rjúfa þöggun innan kirkjunnar. Antje Jackelén, erkibiskup, ritaði undir yfirlýsinguna. Hún segir að kirkjan hafi árum saman barist gegn kynferðisglæpum og að þöggun sé ólíðandi. Hún segir að mikilvægt sé að frásagnir komi fram. Það verði að hlusta á þolendur, trúa þeim og hjálpa þeim að skila skömminni.
Karlmenn bregðast við
Hundruð karlmanna hafa brugðist við frásögnum kvenna og skrifað á sérstaka síðu á vef sænska ríkissjónvarpsins, SVT. Sumir lýsa skoðunum sínum og reynslu, aðrir koma með tillögur til úrbóta.
Einn þeirra segir að hann geri sér grein fyrir að vera hluti af vandamálinu þegar hann segi brandara á kostnað kvenna, fólks af öðrum kynþætti eða hinsegins fólks. Hann hafi ekki meint neitt illt með þessu, bara viljað efla samkennd hópsins með því að láta menn hlæja. En nú geri hann sér grein fyrir slík hegðan sé vandamál.
Viðbúið er að umræðan haldi áfram því uppljóstranir og ásakanir eru daglega á forsíðum blaða og fyrirferðamiklar í fréttum ljósvakamiðla.