Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sæluvíma – Lily King

Mynd: Angústúra / Angústúra

Sæluvíma – Lily King

19.08.2020 - 13:57

Höfundar

„Sagan er svo mikill spegill. Hún fjallar um það hver er að horfa á hvern og hver er þróaðari en hver annar, og þessa stöðu sem vestrænt fólk hefur sett sig í, að þeirra sjónarhorn sé æðra. Þannig að okkur fannst hún vera ákveðinn gluggi út í þennan heim en líka spegill til baka á okkur sjálf,“ segir María Rán Guðjónsdóttir, þýðandi og bókaútgefandi hjá Angústúru, um Sæluvímu eftir bandaríska höfundinn Lily King, bók vikunnar á Rás1.

Sæluvíma, sem  kom út í íslenskri þýðingu Ugga Jónssonar fyrr á árinu, er margverðlaunuð skáldsaga sem byggir á raunverulegum atburðum í lífi bandaríska mannfræðingsins Margaretar Mead þegar hún var við störf á Nýju-Gíneu árið 1933 ásamt þáverandi eiginmanni sínum, Reo Fortune, og Gregory Bateson sem hún átti eftir að giftast síðar. Bókin, sem er full af ást, spennu og drama, er því skáldsaga sem byggir á raunverulegum heimildum.

Sæluvíma sló í gegn í Bandaríkjunum þegar hún kom út árið 2014 og hlaut Lily King Kirkus-skáldskaparverðlaunin, Bókmenntaverðlaun Nýja-Englands og Bandarísku gagnrýnendaverðlaunin, auk þess sem Sæluvíma var valin ein af tíu bestu bókum ársins af The New York Times Book Review, tímaritinu TIME og Amazon.

Rætt var við Maríu Rán í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan. Halla Harðardóttir er umsjónarmaður þáttarins á sunnudag og viðmælendur hennar verða þær Steinunn Inga Óttarsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir. 

 

 

Mynd: wikipedia / wikipedia
Margaret Mead og Gregory Bateson við störf í Nýju-Gíneu